Project Description

Ef þú heldur að málmblásturshljóðfærin fái nafn sitt af því að þau séu gerð úr málmi, þá hefurðu rétt fyrir þér. Hljóðfærin eru gerð úr málmi sem heitir á íslensku látún (einnig kallað messing eða brass) og þau geta leikið afskaplega sterka tóna sem heyrast um langan veg.
Í gamla daga voru forfeður málmblásturshljóðfæranna gerðir úr viði, skögultönnum, dýrahornum og skeljum en í dag eru þau öll gerð úr látúni.
Málmblásturshljóðfæri eru í grunninn mjög langar pípur sem breikka á öðrum endanum í bjöllulaga form. Búið er að beygja og snúa upp á pípurnar svo þær myndi ýmis form sem auðvelda hljóðfæraleikaranum að halda á þeim og leika á þau.
Líkt og tréblásturshljóðfæraleikarar nota málmblásturshljóðfæraleikarar* loft úr lungunum til að búa til hljóð en í stað þess að blása yfir tréblöð búa þeir til tónana með því að láta varirnar titra þegar blásið er í bjöllulaga munnstykki. Munnstykkið magnar upp titringinn og þannig verður tónninn til.
Flest málmblásturshljóðfæri hafa ventla sem líta út eins og takkar og þegar ýtt er á þá opna þeir og loka mismunandi hlutum pípunnar. Tónhæðinni er breytt með því að ýta á takkana eða með því að láta varirnar titra mikið eða lítið.

_____________
*Þetta eru líklega lengstu orðin á þessari vefsíðu!

Básúna

Básúna er gerð úr löngu látúnsröri með bollalaga munnstykki á endanum og bjöllu á hinum. Á básúnunni er u-laga rör sem hægt er að draga fram og til baka og breyta þannig lengd básúnunnar og þar með tóninum. Þetta rör er kallað sleði. Básúna spilar nótur sem eru dýpri en í frönsku horni en ekki eins djúpar og í túbu.
Básúna þróaðist frá stórum blásturshljóðfærum skyldum trompet og birtist fyrst í þeirri mynd sem við þekkjum það í Evrópu á 15. öld og upphafi þeirrar 16.

Á 19. öld kom fram básúna með ventlum (tökkum) en hún náði ekki vinsældum og enn eru notaðar básúnur með sleða málmblástursdeild nútíma hjómsveita og í djasshljómsveitum.

Látún, sem málmblásturshljóðfærin eru gerð úr, er blanda af kopar og sinki. hvort tveggja eru málmar sem við fáum úr sumum mat og því gæti gerst að yfir ævina borðaðir þú heila básúnu.

Básúna

Franskt horn

Franskt horn er gert úr strýtulaga látúnsröri sem er beygt í ótal hringi. Ef maður myndi rétta úr því væri það um 6 metra langt. Á öðrum endanum er stór bjalla og á hinum er strýtulaga munnstykki.
Á hljóðfærinu miðju eru takkar sem hornleikarinn notar til að stjórna tónunum auk þess sem hann beitir vörunum á mismunandi hátt við munnstykkið.
Þrátt fyrir að vera kallað franskt horn er útgáfa þess sem við þekkjum fundin upp í Þýskalandi. Eins og nafnið gefur til kynna lék fólk upphaflega á horn dýra áður en farið var að búa hljóðfærið til úr málmi.

Franskt horn

Trompet

Trompet er gerður úr látúni með bjöllu á öðrum endanum og bollalaga munnstykki á hinum. Á hljóðfærinu eru ventlar sem stytta rörið og breyta tóninum.

Trompet hefur verið til í ýmsum myndum á síðustu nokkuð hundruð árum. Fyrst um sinn voru ekki á þeim neinir ventlar til að breyta tóninum og þá var aðeins notast við varirnar. Á tímabili voru gerðar tilraunir með rör eins og á básúnu og þannig var hann í 400 ár. Árið 1813 var ventlum loks bætt við.

Í meðfylgjandi myndbandi má á 10. mínútu heyra trompetleikarann Freddie Hubbard spila sérlega háa tóna á trompet.

Trompet

Túba

Túba er stærsta málmblásturshljóðfærið og gefur dýpsta tóninn. Hún er gerð úr löngu röri sem vafið er í sívalning og á öðrum endanum er stór og mikil bjalla og á hinum er munnstykkið. Á túbunni eru ventlar sem túbuleikarinn notar til að breyta tóninum.

Túba