Project Description

Jórunn Viðar fæddist í Reykjavík 7. desember 1918. Hún varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1937. Sama ár sigldi hún til Þýskalands, þar sem hún nam tónsmiðar við Tónlistarakademíuna í Berlín í tvo vetur, en sneri heim til Íslands í júlímánuði 1939.

Árin 1943-1946 dvöldu Jórunn og Lárus eiginmaður hennar með syni sínum í New York, þar sem hann leitaði sér lækninga og rak fyrirtæki eftir það, en hún lagði stund á frekara nám í tónsmíðum við Julliard-skólann þar í borg. Þegar þau fluttu heim eignuðust þau dætur sínar tvær og Jórunn stundaði tónsmíðar, auk þess að vera einleikari og undirleikari á píanó.

Hún samdi tónlistina við kvikmyndina Síðasta bæinn í dalnum, og hefur samið fjölda annarra tónverka, oft við gamla eða nýja texta eftir ýmsa höfunda. Í tónsmíðum sínum hefur Jórunn sótt mikið í íslenskan tónlistararf, bæði sem innblástur og við útsetningar á íslenskum þjóðlögum. Hún var mjög lengi eina konan í Tónskáldafélagi Íslands.

Meðal þekktra verka Jórunnar eru Kall sat undir kletti, „Únglíngurinn í skóginum“ við texta Halldórs Laxness, ballettinn „Eldur“ og jólalögin „Jól“ og „Það á að gefa börnum brauð“.

Tóndæmi

Eitt af þekktari lögum Jórunnar er við þjóðvísuna „Það á að gefa börnum brauð“.

Annað jólalag eftir Jórunni heitir einfaldlega „Jól“.

Nemendur í forskóla Tónlistarskóla Reykjanesbæjar flytja Kall sat undir kletti á tónleikum árið 2012.