Project Description

Strengjahljóðfærin hafa holan búk sem leyfir tónum að titra inni í þeim, en búkurinn er yfirleitt gerður úr viði. En það sem býr til tóna hljóðfærisins eru strengirnir, sem gerðir eru ýmist úr stáli eða nylon og jafnvel úr görnum.
Oftast er leikið á strengina með því að draga boga yfir þá. Handfang bogans er gert úr viði og þræðirnir á boganum eru gerðir úr hrosshári sem fengið er úr faxi hesta. Stundum nota hljóðfæraleikararnir svo fingur til að plokka strengina.
Í sinfóníuhljómsveit eru strengjahljóðfærin stærstu hljóðfærin og eru í fjórum stærðum: Fiðla, sem er minnst, svo lágfiðla, selló og kontrabassi sem er stærstur.
Minni hljóðfærin gefa frá sér hæstu* tónana og þau stærri gefa frá sér djúpa og hljómmikla tóna.

Í strengjahljóðfærafjölskyldunni eru einnig fjölmörg önnur hljóðfæri eins og t.d. gítar, rafbassi, ukulele og mandólín.
_____________
*Þegar talað er um háa og djúpa tóna er átt við tónhæð. Ef við ætlum að tala um hve mikinn „hávaða“ hljóðfærin framkalla notum við orð eins og sterkt og veikt.

Fiðla

Fiðlan hefur bjartasta tóninn í strengjahljóðfærafjölskyldunni. Hún hefur grunnan búk úr viði og fjóra strengi. Yst á hálsinum eru stilliskrúfur til að strekkja og slaka á strengjunum.

Fiðluleikarinn leggur fiðluna á öxlina á sér til að spila á hana og ýtir niður strengjunum á hálsinum til að stjórna tónhæðinni. Hann getur ýmist strokið strengina með boga eða plokkað þá með fingrum.

Fyrsta fjögurra strengja fiðlan sem sagt er frá var búin til árið 1555. Margir frægir fiðlusmiðir hafa komið fram í gegnum tíðina og sumar fiðlur seljast fyrir himinháar upphæðir. Fiðlur frá t.d. Guarneri fjölskyldunni eða Stradivarius fjölskyldunni geta selst á hundruðir milljóna króna.

Fiðla

Gítar

Gítar er strengjahljóðfæri með löngum hálsi og flötum, holum búk. Strengirnir eru sex talsins og eru plokkaðir og slegnir með fingrum eða gítarnögl.

Gítarinn er eitt vinsælasta hljóðfæri í heiminum. Það eru til alls konar tegundir af gíturum en helst er talað um klassískan gítar, sem er með nælonstrengjum og svo þjóðlagagítar sem er með grennri hálsi og stálstrengjum.

Rafmagnsgítar, sem kom fyrst fram á 4. áratug 20. aldarinnar, notast við magnara sem getur breytt og skerpt tóna gítarsins með aðstoð rafmagns. Í fyrstu voru þeir líka með holum búk en seinna þróuðust þeir yfir í að hafa gegnheilan búk. Rafmangsgítar er vinsæll í rokki, poppi og djasstónlist.

Þó flestir gítarar hafi sex strengi eru einnig til fjögurra strengja gítarar og jafnvel 12 strengja gítarar ásamt fleiri útfærslum.

Nafn gítarsins kemur frá spænska orðinu „guitarra“ en á sér einnig eldri uppruna í latneska orðinu „cithara“ og fornu orði á Sanskrít yfir streng, „tar“.

Gítarinn á fyrri tímum
Hljóðfæri lík gítarnum hafa verið notuð í fjöldamörg ár í mörgum menningarsamfélögum. Líklega hefur verið leikið á hljóðfæri lík gítarnum í 3000 ár. Elsti varðveitti gítarinn er kenndur við egypska söngvarann Har-Moses sem lék fyrir prinsessuna Hatshepsut. Hann er geymdur í þjóðminjasafninu í Kaíró í Egyptalandi.

Lúta kom til Evrópu á milli 6. og 9. aldar í ýmsum myndum, til dæmis til Býsantín sem Barbat og síðar til Spánar í höndum Mára og hét þá Oud.

Einn af forfeðrum nútímagítars var barokk-gítarinn. Á hann var leikið í evrópsku endureisninni á 17. öld. Barokk-gítar hafði 9 eða 10 strengi með tvo þeirra jafnan stillta á sömu nótu. Síðar bættist við lágur E-strengur þegar hann þróaðist í átt að þeim gíturum sem við þekkjum í dag.

Á 19. öld hóf Antonio Torres Jurado að smíða gítara í líkingu við þá þjóðlagagítara og klassísku gítara sem við þekkjum í dag. Flestir gítarar nútímans eru afbrigði af hönnunum Torres, enda er hann oft kallaður Stradivari gítaranna, en Stradivari var heimsþekktur fiðlusmiður.

Rafmagnsgítar
Rafmagnsgítarinn var fundinn upp eins og áður segir á 4. áratug 20. aldar, og það gerðist í Bandaríkjunum. Fyrsta einkaleyfi á rafmagnsgítar var í höndum George Beauchamp og var á gítar sem hann gerði með félaga sínum Adolph Rickenbacker árið 1931. Margir aðrir uppfinningamenn voru að vinna að gerð rafmagnsgítara á sama tíma.
Meðal frægra gítarsmiða er Les Paul sem kom gegnheilum rafmagnsgítar á kortið undir vörumerkinu Gibson.

Árið 1951 fann Leo Fender upp Fender Telecaster gítarinn. Sá gítar, ásamt Gibson Les Paul og Gibson SG mörkuðu upphafið að gríðarlegum vinsældum gegnheilla rafmagnsgítara, en þessar gerðir gítara eru enn í dag þær vinsælustu.

Kontrabassi

Kontrabassi er stærsti meðlimur strengjafjölskyldunnar og gefur dýpstu tónana.

Leikið er á kontrabassa eins og selló, þ.e. að hljóðfærið stendur á gólfi í faðmi sellóleikarans. Leikið er á hljóðfærið með því að ýta niður strengjunum á hálsinum til að stjórna tónhæðinni og svo eru strengirnir ýmist stroknir með boga eða plokkaðir með fingrum.

Eins og önnur hljóðfæri í strengjafjölskyldunni varð hann til snemma á 16. öldinni. Ýmsar útgáfur hafa orðið til af kontrabassa í gegnum tíðina, til dæmis með mismunandi strengjafjölda, en einnig voru búnir til risakontrabassar sem voru svo stórir að tvo hljóðfæraleikara þurfti á þá; einn til að ýta niður strengjunum á hálsinum og annan til að strjúka strengina með boga.

Kontrabassi

Lágfiðla

Lágfiðlan virðist við fyrstu sýn alveg eins og fiðla, en látið ekki blekkjast. Hún er eilítið stærri en fiðla og tónar hennar eru líka dýpri og hlýrri.

Leikið er á lágfiðlu með því að ýta niður strengjunum á hálsinum til að stjórna tónhæðinni og svo eru strengirnir ýmist stroknir með boga eða plokkaðir með fingrum.

Lágfiðla er stillt hreinni fimmund neðar en fiðla og staðsetur sig þá á milli fiðlu og sellós, sem er stillt áttund neðar en lágfiðla.

Fiðla og lágfiðla

Selló

Selló er svipað í laginu og fiðla og lágfiðla en er talsvert stærri og hefur styttri háls. Nótur sellósins eru einnig dýpri, en strengir þess eru stilltir áttund neðar en á fiðlu. Selló hefur breitt tónsvið og gefur bæði frá sér djúpa, hlýja tóna og skæra háa tóna.

Stærðarinnar vegna getur sellóleikarinn ekki stungið sellói í hálsakotið eins og með fiðlu og lágfiðlu og því er sellóið látið standa á gólfi með þar til gerðum pinna sem er neðan á því. Leikið er á hljóðfærið með því að ýta niður strengjunum á hálsinum til að stjórna tónhæðinni og svo eru strengirnir ýmist stroknir með boga eða plokkaðir með fingrum.

Fram á 19. öld voru selló ekki með þessum pinna þannig að þeir sem léku á hljóðfærið þurftu að sitja með það milli hnjánna og þrýsta þeim saman svo það félli ekki í gólfið.

Selló