Project Description

Edvard Grieg fæddist í Bergen í Noregi 15. júní árið 1843. Meðan Grieg lifði barðist Noregur fyrir sjálfstæði sínu og það var tónlist Grieg sem efldi sjálfsmynd Norðmanna. Fyrir það er hann álitinn hetja í Noregi. Mörg af lögum hans innihalda norsk þjóðlög og draga upp tónlistarmyndir af fallegu landslagi Noregs.

Fyrstu tónlistartímar Edvards voru með móður hans sem var fær píanóleikari. Fjölskylda Edvards var mjög tónelsk og oft hljómaði tónlist á heimilinu. Hann byrjaði að semja tónlist níu ára gamall. Frægur norskur fiðluleikari hvatti Edvard til að fara í frekara tónlistarnám þegar hann var fimmtán ára og úr varð að hann fór til Leipzig í Þýskalandi. Eftir útskriftina fluttist hann til Kaupmannahafnar í Danmörku þar sem hann giftist frænku sinni, Ninu Hagerup, sem var söngkona.

Edvard Grieg átti farsælan feril sem píanóleikari og ferðaðist um alla Evrópu að halda tónleika. Á sumrin sneri hann alltaf heim til Noregs þar sem hann samdi tónlist. Árið 1885 sneri hann aftur til Noregs og byggði kofa í Troldhaugen þar sem hann settist að. Úr kofanum hafði hann útsýni yfir fjörð og fjöll og þar samdi hann mörg sín bestu verk.

Norska leikritaskáldið Henrik Ibsen fékk Grieg til að semja tónlist fyrir leikrit sitt, Pétur Gaut. Í því eru tvö af þekktustu verkum Griegs, Morgunstemning og Í höll dofrans.

Edvard Grieg dó 4. september árið 1907 í heimabæ sínum Bergen í Noregi.

Tóndæmi

Morgunstund

Í höll dofrans