Halldór Þorsteinsson frá Vörum – fyrri hluti

Categories: Safn Ólafs A. ÞorsteinssonarPublished On: 2021-01-230 Comments25.6 min read
Styrmir
DEILA

Þá er komið að næstu upptöku úr safni Ólafs A. Þorsteinssonar. Áður en ég skrifa meira vil ég þakka þeim sem hafa styrkt verkfnið. Eins og ég nefndi í fyrri færslu er þetta dýrt ferli en mikilvægt og það er algjörlega neðangreindum að þakka að við fáum í dag að heyra þessa upptöku.

  • Aldís Jónsdóttir
  • Arinbjörn Vilhjálmsson
  • Björg Ólafsdóttir
  • Bryndís Gísladóttir
  • Erna Björnsdóttir
  • Geir Gunnarsson
  • Gunnar Páll Guðjónsson
  • Hulda Björk Þorkelsdóttir
  • Sverrir Ásmundsson (sá einnig um að fullvinna hljóðupptökurnar)
  • Þórdís Gunnarsdóttir

Þessi upptaka er frá því um 1977. Hún er tekin upp í tveim hlutum á heimili Halldórs Þorsteinssonar í Garði og fyrri hlutann birti ég hér í dag. Því miður hefur vantar upphaf upptökunnar. Nokkuð er um skruðninga í upphafi meðan einhver á við hljóðnemann svo það gæti verið að upptökutækið hafi ekki komist í gang fyrr en liðið var á samtalið. Svo er mögulegt að önnur upptaka hafi eytt hluta af þessari. Hver svo sem ástæðan er, þá getum við í dag hlustað á Halldór Þorsteinsson frá Vörum ræða lífið og tilveruna við Ragnar Guðlaugsson og Ólaf A. Þorsteinsson.

Halldór fæddist þann 22. febrúar árið 1887 og lést þann 3 janúar árið 1980. Árið 1967, þegar Halldór varð áttræður, ritaði Marta Valgerður Jónsdóttir grein um hann í 2. tölublað Faxa og ég tek mér það bessaleyfi að birta hluta úr greininni hér:

„Það má með sanni segja, að Halldór í Vörum hafi stundað sjóinn frá barnsaldri, fyrst með föður sínum sem hefur kennt honum sjó, en frá 17 ára aldri var hann formaður á vorvertíð og svo úr því á stærri skipum, áttæringum. Var til þess jafnað hve vel hann sigldi skipum, þótti það listasjón er hann sat við stýri og „upp í hleypti og undan sló, eftir gaf og strengdi kló.“ Það var íþrótt, sögðu menn og færðust í aukana, er þeir minntust á þessa lista siglingu, já, lifnuðu allir við og jafnvel blikaði tár í auga, enda var það fögur sjón að sjá skip svífa seglum þöndum í blásandi byr og vera þess vitandi að hugur og hönd eins manns réði þar ríkjum. Jafnvel telpukrakki, sem ekkert vit hafði á sjómennsku, gat lengi staðið á sjávarkambinum, bergnuminn og horft á svona siglingu og átt síðan þessa heillandi mynd í vitund sinni. En svo komu mótorbátarnir til sögunnar og þá var hafist handa um þá útgerð, bátarnir voru litlir fyrst, en stækkuðu jafnt og þétt. Allir bátar Halldórs í Vörum hafa heitið Gunnar Hámundarson, er hinn síðasti sameign Halldórs og Þorvaldar sonar hans, sem er skipstjóri á bátnum, einnig Þorsteins á Borg.

Halldór Þorsteinsson var ekki aðeins mikill skipstjóri heldur líka frábær aflamaður. Eftir að mótorbátar komu til sögunnar var ógjörningur að landa heima i Garði, því þar vantar góða höfn. Þeir útgerðarbændur í Garði fluttu því um set á vetrarvertíð og höfðu aðsetur í Sandgerði, en allur afli af bátunum var fluttur heim til verkunar. Reyndi þá á dugnað húsfreyjunnar, að taka vel við og hirða aflann, en samfara þeirri vinnu voru að sjálfsögðu heimilisstörf og barnagæzla. Kristjana kona Halldórs var vel þeim vanda vaxin, var hún hraust og harðdugleg, en er börnin uxu upp, voru þau vanin við að hjálpa til við fiskverkunina, hvert eftir sinni getu. Var heimilið því ein starfandi heild. Eftir að Halldór lét af skipstjórn, hefur hann sjálfur séð um hirðingu og verkun aflans og alltaf mun hann hafa haft umsjón með þessum verkum.

En það voru líka gleði- og tómstundir í Vörum. Þar var mikið sungið og var húsbóndinn þar fyrirliði í því sem öðru. Var þá oft, er stund gafst sungið af hjartans list. Nú eru börnin tólf öll flogin úr hreiðrinu, en þegar fjölskyldan kemur saman, og það er oft, er tekið lagið með sama gleiðibrag, er þá ættfaðirinn organisti og forsöngvari og allir verða eitt og börn á ný. Þegar Halldór var ungur að árum gekk hann í barnastúku, sem alltaf hefur starfað í Garðinum. Þorsteinn faðir hans hafði snemma gerst meðlimur Góðtemplarareglunnar og var það alla ævi síðan, hefur Halldór trúlega fetað í fótspor föður síns og er enn í dag starfandi í Reglunni og það sem meira er, allur barnahópurinn hefur fylgt honum.“

Naustu þessarar upptöku og viltu geta heyrt fleiri? Hugleiddu endilega að styrka yfirfærsluverkefnið svo við getum saman gert fleiri frásagnir aðgengilegar hér á netinu. Smelltu hér til að lesa meira.

Leave A Comment

NÝJAST Í SAFNINU