Afi minn, Ólafur A. Þorsteinsson varð bráðkvaddur aðfaranótt 18. febrúar árið 1988. Ég var þá á áttunda ári svo minningar mínar um hann eru því ekki margar fyrir utan hve ljúft það var svona almennt að vera lítill afastrákur í návist hans. Á fullorðinsárum hef ég reynt að kynnast afa betur gegnum sögur frá samferðafólki hans og því gríðarlega safni ljósmynda sem hann skildi eftir sig. Því mun ég gera betri skil hér á síðunni, en mig langar að deila með ykkur tveim minningargreinum sem ég fann í gömlum dagblöðum og hlýja mér um hjartarætur.

Minningargrein eftir Björn Jónsson

Það er bjart yfir þeim minningum, sem hugurinn geymir um marga þá menn, sem ég átti samleið með í vináttu og starfi á meðan vettvangurinn var suður með sjó. Sjálfsagt er það eðlilegt, að mönnum sé bjart fyrir augum, þegar þeir eru að hefja lífsstarf, sem þeir finna sig kallaða til, og að birtan, sem ljómar þar yfir eigi rætur sínar í þeirri staðreynd. En frá góðum og traustum vinum stafar einnig geislum, sem leggja sinn stóra skerf til birtunnar, sem yfir minningamyndinni vakir.

Að þessu sinni beinist hugurinn sérstaklega að minningu Ólafs A. Þorsteinssonar, fyrrverandi forstjóra Olíusamlags Keflavíkur. Hann hefir nú lokið lífsgöngu sinni og er í dag kvaddur frá Keflavíkurkirkju. Ég segi aðeins „kvaddur“, en ekki „kvaddur í hinsta sinni“, af því að það var hans og okkar beggja sameiginlega hjartans sannfæring, að hinsta kveðjan er ekki til. Svo bjargföst var trúin hans á bjarta byggð á bakvið heljar strauma og þar vissi hann, að ástríkar vinahendur mundu við sér taka.

Ólafur A. Þorsteinsson fæddist í Keflavík hinn 5. ágúst árið 1914. Foreldrar hans voru hin valinkunnu merkis- og sæmdarhjón, Þorsteinn Þorvarðarson fiskimatsmaður og Björg Arinbjörnsdóttir. Þau bjuggu í Þorvarðarhúsi við Íshússtíg. Þau hjónin eignuðust fjóra syni og var Ólafur þeirra yngstur. Elstur bræðranna var Ragnar, sem lést í frumbernsku. Næstur honum var Friðrik, framkvæmdastjóri í Keflavík og organisti við Keflavíkurkirkju í áratugi, þá var Ari Kristinn, síðast skrifstofumaður hjá Olíusamlagi Keflavíkur, og yngstur var Ólafur, eins og áður segir. Auk sonanna ólu þau hjónin í Þorvarðarhúsi upp systurdóttur Bjargar, Ögmundínu Ögmundsdóttur. Hún var lengst af búsett í Reykjavík. Þau eru nú öll látin. Bræðurnir önduðust báðir árið 1968 en Ögmundína árið 1970.

Ólafur ólst upp hjá foreldrum sínum í Þorvarðarhúsi. Það kom snemma í ljós, að hann var góðum gáfum gæddur og mörgum þeim hæfileikum búinn, sem bentu til mikillar og farsællar framtíðar.

Hann stundaði nám í Verslunarskóla Íslands og lauk þaðan prófi vorið 1934. Næstu árin þar á eftir gegndi hann ýmsum störfum í heimabyggð sinni.

Árið 1938 var Olíusamlag Keflavíkur og nágrennis stofnað. Gerðist Ólafur fyrsti starfsmaður þess og vann þar upp frá því allt til síðasta dags. Fyrstu árin vann hann þar einn, en það gat þýtt þrotlaust starf mikinn hluta sólarhringsins, ekki síst á vetrarvertíðinni. En Ólafur brást aldrei. Hann var alltaf viðbúinn, þegar þörf var á þjónustu hans, alltaf jafn lipur og fús til að leggja lið og greiða hvers manns götu.

Olíufélagið var ört vaxandi fyrirtæki og starfsmönnum fjælgaði fyrr en varði. Ólafur stýrði því af þeirri festu, árvekni og snilld, að fullyrt var af kunnugum manni fyrir fáum árum, að Olíufélagið ætti tilveru sína honum að þakka og engum öðrum.

Ólafur var heill og óskiptur í hverju því sem hann tók sér fyrir hendur. Honum var alltaf öruggt að treysta. Heilsteyptari maður en hann er áreiðanlega vandfundinn.

Hinn 18. maí árið 1940 gekk Ólafur að eiga eftirlifandi eiginkonu sína, Hallberu Pálsdóttur frá Hafnarfirði. Þau hafa búið í Keflavík alla sína samleiðartíð. Hallbera er góð og mikilhæf kona og manni sínum reyndist hún framúrskarandi lífsförunautur. Enda var hjónaband þeirra og heimilislíf fágætlega fagurt og friðsælt. Þau eignuðust þrjú börn og eru þau öll á lífi. Elst er Björg, húsmóðir í Keflavík, gift Ásmundi Sigurðssyni vélvirkja. Næst er Sigrún, hjúkrunarfræðingur og húsmóðir í Keflavík, gift Berki Eiríkssyni, skrifstofustjóra, og yngstur er Þorsteinn, efnafræðingur hjá Sjöfn á Akureyri, kvæntur Katrínu Guðjónsdóttur. Barnabörnin eru 12 og langafabörnin 3 talsins. Ólafur var mikill og góður heimilisfaðir. Hann var ástríkur, umhyggjusamur og nærgætinn eiginmaður, enda mun eiginkonan alltaf hafa skipað efsta sætið í lífi hans. Og börnunum var hann ekki aðeins góður faðir, heldur einnig félagi og vinur, sem fylgdist með þeim af lifandi áhuga föðurkærleikans. Og þegar vanda bar að höndum, þá var gott til hans að leita. Hann hafði svo djúpan og næman skilning á því sem erfitt var, og glöggskyggn var hann oft á góðar leiðir til lausnar. Það eitt, að vera í návist Ólafs Þorsteinssonar gat líka haft sín áhrif til góðs og þau ekki lítil. Svo dulmögnuðum, jákvæðum persónuleika var hann gæddur, að ég hefi fáa eða enga þekkt honum líka á vettvanginum þeim.

Hlédrægur var Ólafur að eðlisfari, vildi aldrei trana sér fram eða láta á sér bera. Eigi að síður var hann félagslyndur og hafði brennandi áhuga á ýmsum félagsmálum. Á yngri árum var hann í forystusveit Ungmennafélags Keflavíkur og var einn traustasti máttarstólpinn þar.

Um alllangt skeið tók Ólafur virkan þátt í bæjarmálum. Hann sat í hreppsnefnd og í fyrstu bæjarstjórn Keflavíkur átti hann sæti. Þá var hann um árabil formaður stjórnar Sérleyfisbifreiða Keflavíkur og stjórnaði fyrirtækinu að verulegu leyti á miklum umbrotatímum í sögu þess. Þar sem annarsstaðar auðnaðist honum að leysa hin erfiðustu mál á farsælan hátt.

Byggðasafn Keflavíkur var sérstakt áhugamál Ólafs og seinni árin helgaði hann því flestar tómstundir sínar. Þar kom hann upp frábæru myndasafni, sem um langan aldur mun bera dugnaði hans, skarpskyggni og smekkvísi hið fegursta vitni.

Ólafur Þorsteinsson var mikill gæfumaður í lífi sínu, fyrir margra hluta sakir. En mestu gæfuna hygg ég þó að hann hafi fundið í því að gleyma sálfum sér við að gleðja þá, sem hann átti samleið með og leggja þeim lið. Hjálpfýsi hans var alveg einstök. Þess eiginleika hans fékk ég ríkulega að njóta eftir að leiðir okkar lágu saman og þess mun ég jafnan minnast með miklu og einlægu þakklæti. Vissulega beindist góðvild hans og góðhugur fyrst og fremst að fjölskyldunni, en þar áttu þó miklu fleiri hlut að máli. Sérstaklega lét hann sér annt um þá sem voru einstæðingar eða höfðu á einn eða annan hátt borið skarðan hlut frá borði í lífsbaráttunni. Í sambandi við Ólaf kom hún oft fram í huga minn, þessi fagra og alkunna staka:

Alla þá sem eymdir þjá
er yndi að hugga
og lýsa þeim sem ljósið þrá,
en lifa í skugga.

Þetta hefðu vel getað verið einkunnarorð hans.

Í Keflavík bjó háöldruð, einstæð kona í nágrenni Ólafs, er Helga Geirsdóttir hét. Hún var ein þeirra mörgu, sem Ólafur reyndist sannur vinur og áttu þau hjónin auðvitað bæði hlut að máli. Mér er vel kunnugt um, að sú hlýja og umhyggja, sem gamla konan naut hjá Ólafi og á heimili hans, var einn bjartasti geislinn í lífi hennar. Hér er þó aðeins um að ræða eitt dæmi af mörgum, til þess að sýna og undirstrika hugarstefnu Ólafs í garð þeirra, sem minni máttar voru.

Ólafur var trúhneigður maður og hafði mikið yndi af að ræða, hugleiða og kynna sér andleg mál. Í trúarheimi hans var hátt til lofts og vítt til veggja. Hann var hrifnæm sál, opinn fyrir öllu því sem fagurt er og göfgandi. Guð kærleikans var ljósið og krafturinn í lífi hans, og afstaða hans til dauðans verður vart betur túlkuð en með þessum hendingum Matthíasar:

Feigðin hún er skammvinnt skuggaspil.
Í skaparans hönd er enginn dauði til.

Þess vegna veit ég, dauðinn var honum heimför um „lífsins Fögru dyr“ í himin Guðs, til þess að takast á hendur það hlutverk, sem kærleikurinn kallaði hann til.

Eiginkonu, börnum og öðrum ástvinum sendi ég einlægar samúðarkveðjur frá mér og fjölskyldu minni. Guð blessi þau öll og styrki í bráð og lengd og gefi að geislar hinna björtu minninga um góðan og göfugan dreng megi lýsa upp framtíðarveginn þeirra.

Minningargrein eftir Ólaf Björnsson

Aðfaranótt 18. febrúar varð bráðkvaddur á heimili sínu Ólafur A. Þorsteinsson. Hann fæddist í Keflavík 5. ágúst 1914 og átti heima þar allan sinn aldur. Fullu nafni hét hann Ólafur Arinbjörnsson. Foreldrar hans voru Þorsteinn Þorvarðarson fiskmatsmaður og kona hans, Björg Arinbjörnsdóttir. Þau bjuggu allan sinn búskap í Þorvarðarhúsi við Íshússtíg. Ólafur var því einn fárra innfæddra Keflvíkinga á áttræðisaldrinum. Ungur fór Ólafur að vinna þau störf sem til féllu í fiskiþorpi eins og Keflavík var í þá daga. Hann fór í Flensborgarskólann og svo í Verslunarskólann. Þaðan lauk hann prófi vorið 1933. Ólafur giftist eftirlifandi konu sinni, Hallberu Pálsdóttur, 18. maí 1940. Hún varð honum sönn heilladís. Þau eignuðust þrjú börn: Björg skrifstm., gift Ásmundi Sigurðssyni vélvirkja, Sigrún hjúkrunarfræðingur, gift Berki Eiríkssyni skrifstofustjóra, og Þorsteinn efnafræðingur, giftur Katrínu Guðjónsdóttur.

Barnabörnin eru 12 og barna barnabörnin 3. Öll eru þau sem ein samhent og einhuga fjölskylda, og Ólafur var sannur fjölskyldufaðir alls hópsins.

Ólafur gekk ungur í Ungmennafélagið og valdist þar til forystu í mörgum málum. Enda gekk hann þar að verki sem annars staðar af heilum hug. Hann vann þar mikið að íþróttamálum og leiklist. Sjálfur stundaði hann fimleika. Hann var í mörg ár í sundlaugarnefnd og einn helsti áhugamaður um byggingu „Sundhallarinnar“, sem á sínum tíma var mikið átak. Gjaldkeri UMFK var hann 1936-’42.

Ólafur var um skeið í forystuliði Sjálfstæðisflokksins í Keflavík, og í bæjarstjórn 1950-54. Hann varð svo afhuga pólitík, enda tóku áhugamál hans ekki mið af flokkspólitískum sjónarmiðum.

Hann tók að sér forystu í stjórn Sérleyfisbifreiða Keflavíkur þegar reksturinn var farinn að standa höllum fæti. Hann sá jafnframt um reksturinn að mestu og eftir nokkur ár skilaði hann af sér fyrirtækinu í miklum blóma. Aðalstarf Ólafs var sem framkvæmdastjóri Olíusamlagsins. Haustið 1938 stofnuðu útgerðarmenn hér um slóðir Olíusamlag Keflavíkur, og fengu Ólaf til að veita því forstöðu.

Í byrjun var hann eini starfsmaðurinn. Olían var þá afgreidd af tunnum sem velta þurfti að hverjum bát, oft um langan veg, og á vetrum ef svo viðraði, yfir klaka og klungur. En reksturinn dafnaði fljótt í höndum Ólafs. Reistur var olíugeymir og leiðslur lagðar niður á bryggjurnar. Það var mikil breyting. Farið var að kynda hús með olíu og við það óx starfsemin mikið. Nær allir skiptu við Olíusamlagið, enda var kappkostað að veita góða þjónustu. Veitt var viðgerðarþjónusta sem sinnt var nánast allan sólarhringinn. Mikið var um að frysi í leiðslum í kuldaköstum. Þá gátu orðið miklar annir við að aðstoða fólk, enda þörfin þá mest fyrir hitann. Í slíkum tilfellum gekk Ólafur í viðgerðir sem aðrir. Lengst af svaraði hann síma hvenær sem var sólarhringsins, ef sinna þurfti viðskiptamönnum. Það voru margir merkir menn sem stóðu að stofnun Samlagsins, en um reksturinn þurftu þeir lítið að hugsa, allir treystu Ólafi. Olíusamlög voru stofnuð víða um land um líkt leyti og OSK. Í dag starfar ekkert þeirra í upprunalegri mynd nema OSK.

Þar er hagur í blóma og auk góðra eigna í Keflavík á Samlagið nær 10% í Olíufélaginu hf. Á engan er hallað þótt velgengnin sé þökkuð Ólafi að mestu, eða jafnvel öllu.

Hann hætti framkvæmdastjórastarfinu að eigin ósk um áramótin 1980-81, en sá áfram um bókhaldið o.fl. Hann var því búinn að starfa fyrir Samlagið í tæp 50 ár, þegar hann lést. Það er svo táknrænt um hans störf, að daginn áður en hann lést lauk hann við reikning ársins 1987. Skilaði hreinu borði að vanda.

Ólafur var mikill áhugamaður um varðveislu muna og minja. Hann var lengi formaður Byggðasafnsnefndar. Sjálfur tók hann mikið af myndum, en það sem hans verður líklega lengst minnst fyrir eru milli 7 og 8 þúsundir mynda sem hann safnaði af fólki og ýmsu minnis verðu. Hann tók eftir öllum þessum myndum og vann að mestu sjálfur í sjálfboðavinnu fyrir Byggðasafnið. Þetta er einstakt safn sem mun veita komandi kynslóðum fræðslu og fróðleik.

Myndirnar og sumarbústaðurinn við Laugarvatn voru hans helstu áhugamál. Seinni ár naut hann þess að vera í kyrrðinni með fjölskyldu sinni, sem oft fjölmennti austur í bústað til þeirra hjóna.

Að leiðarlokum færi ég Ólafi innilegar þakkir Olíusamlagsmanna, kurteis, hlýr og hjálpfús hefir hann þjónað okkur í nær 50 ár. Það hefir verið ómetanlegt að njóta starfs hans svo langa tíð. Um það duga orð skammt.

Hallbera mín, þér og öllum hópnum ykkar votta ég samúð mína. En mikil huggun má það vera ykkur hvað einlæglega Ólafur trúði á framhaldslífið.

Vistaskipti leit hann á sem sjálfsagðan hlut þegar kallið kæmi og þeim kveið hann ekki.

Minning um góðan dreng mun lifa.