Árið 2013 fékk ég hugmynd. Hálf klikkaða hugmynd, en það hefur ekki stoppað mig áður svo ég leyfði mér að dvelja aðeins við hana. Ég var þá nýbúinn að lesa fréttir um hræðilegt ástand fjölmargra fjölskyldna á Suðurnesjum sem lifa við sára fátækt og mér varð hugsað til barnanna. Þeirra sem jólasveinarnir sneiða hjá þegar þeir dreifa gjöfum í skó á aðventunni. Þeirra sem horfa þögul í gaupnir sér meðan jafnaldrar þeirra ræða nýjustu jólamyndina í bíó. Barnanna sem geta ekki tekið þátt í frjálsu góðgætisnesti í skólanum eða splæst límmiðum og silfurpennum á jólakortin í skólanum.
Á hinum stóra mælikvarða lífsins gæða eru þetta smáir hlutir en ekki þegar maður lítur þá með augum barns. Þau hafa engan skilning á bótum, atvinnumissi eða vangaveltum um hvaðan næsta máltíð kemur. Þau eiga heldur ekki að þurfa þess. Ekki einasta ættu foreldrar að hlífa börnunum við slíku, heldur eigum við sem samfélag að gera það.
Ég fékk semsagt þá hugmynd að kannski gæti ég hlaupið undir bagga með jólasveinunum svo ekkert barn þurfi að vakna við tóman skó. Háleitur draumur, en samt… Hvað ef einhverjum þætti þetta ekkert svo klikkað? Í bjartsýniskasti og trú á náungakærleik skrifaði ég stöðuuppfærslu á Facebook og kastaði fram þeirri hugmynd að ef fólkið sem hana læsi legði til peninga gætum við í sameiningu búið til pakka með skógjöfum og létt undir með þeim sem verst hafa það.

Loading...

Undirtektirnar voru vægast sagt stórkostlegar. Fyrsta árið safnaðist nær hálf milljón króna sem dugði ekki aðeins fyrir hundruðum skógjafa, heldur gátum við afhent jólagjafir, jólanesti, jólaföndur og fleira fyrir öll börn í um 100 fjölskyldum sem leituðu til Velferðarsjóðs Suðurnesja og jólagjafir fyrir öll börn sem dvöldu á vinajólum Hjálpræðishersins. Árið 2014, 2015 og 2016 safnaðist annað eins! Með dyggri aðstoð fyrirtækja sem hjálpa okkur að fá sem mest fyrir peningana áttum við afgang til að kaupa 100 páskaegg á hverju ári og gefa öllum ungum skjólstæðingum Velferðarsjóðs Suðurnesja.
Nú er árið 2017 og þörfin er enn til staðar, því meira en sex þúsund börn á Íslandi búa við efnislegan skort. Ég ætla ekki að standa þögull hjá og því ætla ég í fjórða skiptið að hefja söfnun svo sem flest börn fái að eiga þessar ljúfu litlu stundir sem ekkert barn ætti að fara á mis við.

​Ef þið viljið taka þátt þakka ég ykkur frá dýpstu hjartarótum.