Hefur þér fundist vanta fleiri ókunnuga menn í líf barnsins þíns? Finnst þér barnið þitt þurfa meiri eftirlitslaus samskipti? Viltu leyfa gjörsamlega hverjum sem er að tala við barnið þitt án þess að skilja eftir sig slóð?

Þá er loks komið appið fyrir þig! ​

Nýverið kom út app sem heitir Melon, en það gerir notendum kleift að eiga í vídjósamskiptum við aðra notendur appsins. Maður bara skráir sig gegnum Facbeook aðgang (eina leiðin) og þá ónáðar appið alla Facebook vini þína með boði um að vera með. Því fleiri, því betra! Þegar þú hefur svo fyllt út stuttan prófíl og logið til um aldur færðu umsvifalaust samband við fyrsta vininn.

Þú veist aldrei hvern þú talar við eða hvað þú færð að sjá og ef þú lendir í hótunum, klámfenginni hegðun eða öðrum óþverra geturðu alltaf smellt á “report”-hnappinn, en auðvitað ekki fyrr en þú hefur upplifað eitthvað sem ekki verður tekið aftur og þú getur ekki sýnt neinum til að segja hvað gerðist.

Frábært, ekki satt?

Ég hlóð auðvitað niður appinu um leið og ég uppgötvaði það og komst strax í samband við öðlinga frá öllum heimshornum.

Eftir fimm mínútna notkun eyddi ég appinu snarlega og tryggði svo að börnin mín muni aldrei hlaða því niður. Það ættir þú að gera líka.

Hvenær ræddir þú síðast við barnið þitt um ábyrga netnotkun?