“Þau voru alltaf veik. Ekki flensa, heldur endalausar sýkingar í ennisholunum, hitavella og slím. Alltaf endalaust veikindavesen.” Hjónin skildu hvorki upp né niður í því hvernig stóð á endalausum veikindum barna þeirra þar til þeim var bent á að athuga hvort mygla gæti verið valdurinn.
Þau höfðu samband við fagaðila sem mætti á svæðið, tók út íbúðina og uppgötvaði raka á stórum svæðum undir málningunni þar sem veggirnir mættu lofti.
Þau fjarlægðu hluta af málningunni og þá blasti við þeim skaðvaldurinn: kolsvartur, eitraður myglusveppur.

Íbúðina leigðu þau af leigufélagi sem átti fullt af íbúðum og fullt af peningum. Fasteignamógúllinn, sem átti meira að segja hótel og allskonar, hlyti að bregðast við og laga þetta.

“Nei.”

Þannig var tónninn sleginn fyrir allt það sem á eftir kom. Þau gætu fjarlægt þetta sjálf.
Hjónin settu því upp hanska og öndunargrímur og skófu sjálf myglu og ónýta málningu af veggjum íbúðarinnar. Leigufélagið hlyti svo að græja rakann.

En það var óþarfa bjartsýni.Hjónin hefðu hreinsað burt mygluna og þá er ekkert vandamál lengur, er það nokkuð? Þau þyrftu bara að drífa í að mála þar sem þau höfðu skemmt málninguna á veggjunum og muna svo að borga leiguna á réttum tíma.

Hjónin vildu ekki gefa sig. Þau höfðu ítrekað samband við umsjónarmann fasteignarinnar og leigufélagið sjálft og mættu bara skætingi og loks þögn. Þau höfðu samband við heilbrigðisyfirvöld sem staðfestu eftir skoðun að þarna væri ekki hægt að búa nema þetta yrði almennilega þrifið og lagað.

Engin viðbrögð. Munið bara að borga leiguna á réttum tíma.

Næsta skref var að ráða lögfræðing. Hann sendi leigufélaginu kröfu um að íbúðin yrði þrifin og að hjónin fengju endurgreidda leigu þá mánuði sem leigufélagið hefði hunsað að laga íbúðina. Þá stóð ekki á viðbrögðunum. Þau fengu bréf þar sem þeim var sagt upp leigunni því þau þættu ekki æskilegir leigjendur.

Lögfræðingurinn þeirra skrifaði bréf og lögfræðingar leigufélagsins svöruðu. Tímataxtinn tikkaði hratt og þegar þau höfðu greitt sínum lögræðingi á þriðja hundrað þúsund gátu þau ekki meir. Þau þurftu að eiga fyrir leigunni um næstu mánaðamót.

Í sömu viku og þau skiluðu íbúðinni fengu hjónin bréf frá leigufélaginu. 20 þúsund krónur skyldu þau greiða því það hefði þurft að mála veggina sem þau eyðilögðu. Kunningjar þeirra í stigaganginum sögðu þeim að ný fjölskylda hefði flutt inn í íbúðina strax á eftir þeim.

Og áfram heldur það.