Guðlaugur H. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar svaraði mér á Facebook fyrr í kvöld en ég get ekki annað en svarað honum hér því hann blokkaði mig á Facebook þegar ég gerði grín að honum fyrir að haga sér eins og klappstýra meirihlutans í síðustu kosningum. Ég byggi því svör mín á skjáskotum sem aðrir hafa sent mér og læt þau fljóta með eftir hentugleik.

Hæ, Gulli!
​Takk fyrir svörin. Rosalega varstu nú fyndinn að kalla mig Ove frekar en að ávarpa mig bara með nafni. Brillíant! Ég og hann erum nefninlega svo svakalega ferkantaðir kallar sem viljum að hlutirnir fari eftir reglum og samþykktum. Ég get alveg skilið hvers vegna það fer fyrir brjóstið á þér, en mikið svakalega var þetta fyndið. ​Fyrirgefðu annars þetta með titilinn þinn.
​Þú segist ekki standa fyrir neinu hvað varðar gögn. Er virkilega ekki hægt að setja kröfur, bæði á þig og þá sem senda þér gögn? Getur hver sem er sent þér hvaða drasl sem er og þú bara leggur það gagnrýnilaust fyrir?

Uppdráttur sem sýnir 1) gildandi deiliskipulag á því svæði sem breytingin nær til ásamt næsta nágrenni og 2) tillögu að breyttu skipulagi á svæðinu. Uppdrættirnir skulu vera í sama mælikvarða og gildandi deiliskipulag. Afmarka skal reitinn sem breytingarnar ná til með skýrum hætti. Sjá dæmi um uppsetningu á bls. 4.

Heiti upprunalegs deiliskipulags sem verið er að breyta skal koma skýrt fram á öllum gögnum og tákn og skýringar skulu vera þau sömu.

Þessi texti er úr leiðbeiningum Skipulagsstofnunar vegna breytinga á deiliskipulagi. Er til of mikils mælst af íbúum bæjarins að þú „standir fyrir því“ að líta yfir teikningarnar og segja: „Heyriði, þetta er bara ekki fullnægjandi. Ég get ekki lagt þetta fyrir USK-ráðið og íbúa bæjarins því svona gögn þurfa að vera hafin yfir allan vafa. Hvernig eiga annars íbúarnir sem ég þjóna að geta tekið upplýsta afstöðu?“

Eru þetta vinnubrögðin, Gulli?

Þetta með auglýsingarnar skal ég alveg éta ofan í mig að hluta þó ég fallist ekki á að Víkurfréttir jafnist á við fjölmiðil sem er gefinn út á landsvísu, rétt eins og Skipulagsstofnun mælir með. Kannski vita þeir bara ekki hvað PalliKet er frábær. EN… ég veit núna að hin auglýsingin var bak við áskriftarvegg Lögbirtingarblaðsins sem ég hef ekki aðgang að. Ég leitaði í útgefnum tölublöðum og fann ekki auglýsinguna og hljóp því á mig. Ég gerði mistök og viðurkenni það fúslega.

Sérðu hvað þetta er auðvelt, Gulli?​
Talandi um það… Þetta fannst mér besti hluti svarsins hjá þér. Ég er búinn að velta rosalega mikið fyrir mér hvað þú hugsaðir þegar þú splæstir í aukagæsalappir aftan við textann sem þú segir að sé orðréttur. Varstu að vona að enginn myndi nenna að fletta upp skipulagslögunum til þess að sannreyna það sem þú segir? Veistu ekki hvað ég er ógeðslega leiðinlegur og ferkantaður?

​Gulli, Gulli, Gulli…

​​1. mgr. 43. gr Skipulagslaga 123/2010 er svona:

Nú telur sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi og skal þá fara um breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Þó er ekki skylt að taka saman lýsingu, skv. 1. mgr. 40. gr., vegna breytinga á deiliskipulagi. ​

Sérðu? Hér er barasta ekkert um 41. greinina sem þú bættir svo fimlega inn í annars ágæt undanbrögð. Vegna þess að mér þykir svo mikilvægt að þú vitir hvað þú ert að gera í vinnunni skal ég skella hér inn tengli á leiðbeiningar Skipulagsstofnunar, en þar eru einmitt gefin dæmi um hvernig skal auglýsa breytingar á deiliskipulagi:

Einhverra hluta vegna notar Skipulagsstofnun 43. grein í sinni auglýsingu, sem vill svo skemmtilega til að fjallar um BREYTINGU á deiliskipulagi en ekki nýtt deiliskipulag eins og sú fertugastaogfyrsta. Þú kannski hringir í þau í vikunni og lætur þau vita að þú hafir rétt fyrir þér en ekki þau.

​Íbúar Reykjanesbæjar eiga það skilið að þeirra mál séu meðhöndluð af nærgætni, fagmennsku og gagnsæi. Það næst ekki fram ef þú yppir bara öxlum meðan þú áframsendir hroðvirknislega unnið drasl á kjörna fulltrúa og íbúa og lætur eins og það komi þér ekki við. Stefndu nú á smá metnað.

​Kveðja,

Ove