Um þessar mundir auglýsir Reykjanesbær eftir athugasemdum varðandi breytingu á deiliskipulagi sem gerir eigendum lóðarinnar Hafnargötu 12 kleift að byggja þar 77 íbúða fjölbýlishús. Um þessar mundir gengur undirskriftarlisti á netinu þar sem fólk mótmælir fyrirhuguðum framkvæmdum en það er hætt við því að það hafi lítið að segja. Þegar umhverfissviði Reykjanesbæjar berast samhljóða athugasemdir frá hópi fólks eru þær afgreiddar á einu bretti eins og um eina athugasemd hafi verið að ræða. Til að Reykjanesbær finni fyrir raunverulegum þrýstingi vegna þessa máls ættu þeir íbúar sem eru þessu mótfallnir að senda hver sína athugasemd með áherslu á áhrif sem snerta þá persónulega, hvort sem það er vegna áhrifa á nærliggjandi eignir þeirra eða ásýnd miðbæjarins sem íbúar eiga vissulega allir saman.

​Ef það skyldi hjálpa einhverjum að setja saman sínar athugasemdir ætla ég að deila með ykkur mínum hugsunum um þetta mál.

​Nóg komið af fúski

​​Íbúar Reykjanesbæjar hafa um svo langa hríð þurft að búa við vond vinnubrögð stjórnenda að þeir kippa sér ekki lengur upp við fúsk eins og það sem framkvæmdastjóri umhverfis- og skipulagssviðs stendur fyrir. Ég skal nefna nokkur atriði tengd þessu máli og þið fyrirgefið mér vonandi langan texta, því svona lagað er mikilvægt:

​Tillögu að deiliskipulagi eða breytingu á núgildandi skipulagi á að auglýsa í Lögbirtingarblaðinu og með áberandi hætti, t.d. í dagblaði sem er dreift á landsvísu. Formaður umhverfis- og skipulagsráðs, Eysteinn Eyjólfsson, hefur gefið það upp að bærinn hafi auglýst í Víkurfréttum og á vef bæjarins „eins og venja er til“”. Maður skyldi ætla að formaður umhverfis- og skipulagsráðs viti að breytingar sem þessar ​á að auglýsa í Lögbirtingarblaðinu​ og að þær á líka að auglýsa með áberandi hætti, t.d í dagblaði sem dreift er á landsvísu. Þó að formaðurinn hafi kannski miklar mætur á Víkurfréttum fallast eflaust fáir á að það jafnist á við auglýsingu í alvöru víðlesnum fjölmiðli. Hvað sem því líður er þó ekki túlkunaratriði að Reykjanesbær auglýsti ekki í Lögbirtingarblaðinu og brást þar með skyldum sínum. (Uppfært 30/1: Fullyrðingar mínar um Lögbirtingarblaðið ét ég hér með ofan í mig. Mér hefur verið bent á að auglýsingin birtist í vefútgáfu Lögbirtingarblaðsins bak við áskriftarvegg sem ég hef ekki aðgang að. En áfram höldum við…)

​Formaðurinn álítur það einnig nokkra göfugmennsku af hálfu bæjarins að halda opinn kynningarfund um málið því þau séu að vanda sig svo mikið. Skipulagsstofnun mælir einmitt með því í leiðbeiningum um deiliskipulagskynningar að haldinn sé kynningarfundur með íbúum sem ætla má að breytingin varði. Það er því algjörlega ástæðaust fyrir Eystein að berja sér á brjóst fyrir það sem ættu að vera eðlileg vinnubrögð.

Á þeim fáu stöðum sem Reykjanesbær velur að auglýsa eru auglýsingarnar meingallaðar. Fyrir það fyrsta virðist Guðlaugi H. Sigurjónssyni, framkvæmdastjóra umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar, ekki fullljóst eftir hvaða reglum hann vinnur því í auglýsingunni er talað í kross um deiliskipulagstillögu og deiliskipulagsbreytingu auk þess sem sagt er að auglýsingin sé birt í samræmi við 41. grein skipulagslaga nr. 123/2010 (sem fjallar um nýtt deiliskipulag) meðan fylgigögnin sýna deiliskipulagsbreytingu, en slíkt fellur undir 43. grein sömu laga. Þarna tekst framkvæmdastjóranum – alls ekki í fyrsta skipti – að hefja stjórnsýsluferli á formgalla sem verður eflaust efni til kæru gangi þessi áform eftir.
Þarna hættir þó ekki fúskið, því Guðlaugur veður áfram með þeim viðvaningshætti sem íbúar eru löngu orðnir allt of vanir og lætur fylgja með gögnunum teikningar sem eru í alla staði óásættanlegar.

Það er algjört grundvallaratriði í skipulagsmálum að þau gögn sem lögð eru til grundvallar ferlinu öllu séu skýr og aðgengileg. Skipulagsákvarðanir varða nefninlega ekki bara bæjarfulltrúa og peningafólkið – þær varða hagsmuni íbúa og geta haft í för með sér miklar breytingar á umhverfinu. Hér fyrir ofan er hægt að sjá hvernig annars vegar Reykjanesbær og hins vegar Reykjavíkurborg kynna breytingar á deiliskipulagi. Kynning Reykjavíkurborgar er skýr og tvíllaus þar sem báðar teikningar eru nákvæmlega eins fyrir utan breytinguna, sem þannig verður augljós. Í gögnum Reykjanesbæjar er ekkert samræmi og maður þarf að feta sig gegnum hvern þumlung teikningarinnar og bera saman við hina til þess að reyna a að gera sér í hugarlund öll þau áhrif sem þetta hefur.

​Það er auk þess ætlast til þess að breytingin sé útskýrð með texta við teikninguna en Reykjanesbær sér ekki ástæðu til þess að nefna sérstaklega hvers vegna búið er að teikna lóðamörk nýja hússins inn á lóðarmörk Aðalgötu 2. Þar þarf fólk bara að geta í eyðurnar. Á gömlu teikningunni virðist gert ráð fyrir því að fjarlægja bygginguna en á þeirri nýju er sú merking horfin og nú á bara að sneiða af garðinum þeirra. Í skýringum er ekki orð haft um þessa stóru breytingu.

Fleira forvitnilegt er að sjá þarna, eins og til dæmis að á gömlu teikningunni er bílastæði sem ekki er til í raunveruleikanum (teiknað frá Hafnargötu 15 og upp að Minnismerki sjómanna, mun lengra en það er í raun) en á þeirri nýju er það rétt teiknað, þrátt fyrir að það sé utan þess svæðis sem er afmarkað sem breytt svæði á nýja kortinu. Hvað gildir? Er verið að breyta bílastæðinu líka? Voru teiknararnir að gera tilraunir með raunsæishyggju frekar en að teikna eftir núgildandi skipulagi? Hverjum dettur í hug að vinna svona?

​Einhverjir íbúar hafa kvartað undan því að ekki sé hægt að skoða þrívíddarteikningar af byggingunum til þess að geta áttað sig á því hvernig þær verða í samræmi við nærliggjandi hús. Kannski þyrfti fólk ekki að biðja um það ef bærinn hefði gengið almennilega frá teikningunum til að byrja með og sýnt á þeim samanburðinn, þó ekki væri nema með þversniði. ​Sjálfhverfa þeirra sem teikna húsið er svo algjör að öll þversnið sýna eingöngu blokkina, sem hjálpar þeim lítið sem vilja skilja hin raunverulegu áhrif.

Allar hinar ástæðurnar

Fúskið sem Guðlaugur og Eysteinn bera ábyrgð á er alls ekki eina ástæðan fyrir því að þessi blokk er slæm hugmynd.

Blokkirnar munu skyggja verulega á garða og hús við Túngötu og væntanlega taka frá þeim talsverða sólarsælu auk þess að veita fólki á efri hæðum blokkarinnar stórgott útsýni inn í stofur þeirra og garða.
Bílakjallari verður undir húsinu og þar verða um 58 bílastæði fyrir allar 77 íbúðirnar. Hvað sem öllum “hvaeretta, mar”-athugasemdum líður er Reykjanesbær ekki beint þekktur fyrir bíllausan lífsstíl og því eðlilegt að gera ráð fyrir að lágmarki einum bíl fyrir hverja íbúð. Það er ekki óeðlilegt mat í landi með um 600 fólksbíla á hverja 1000 íbúa. Afgangurinn sem ekki kemst í bílakjallarann mun því dreifast um gamla bæinn og miðbæ Reykjanesbæjar, og eflaust væri hægt að verja einhverjum tíma í að ræða umferðarálagið sem fylgir útgangi bílakjallarans á Norðfjörðsgötu.

Öllu merkilegra þykir mér hverjir standa að baki þessum framkvæmdum. Í fundargerðum Reykjanesbæjar kemur fram að það er fyritækið Hrífutangi sem sækir um að byggja fjölbýlishúsið en því er stjórnað af Sigurði H. Garðarssyni og Helga Guðmundssyni. Þeir hafa meðal annars unnið sér það til frægðar að vera umfjöllunarefni þáttanna Bresta þar sem fjallað var um kennitöluflakk og „útfararstjóra“ sem taka að sér að fylgja nær gjaldþrota fyrirtækjum til grafar meðan þeir mjólka úr þeim hverja þá krónu sem hægt er að sækja með löglegum eða ólöglegum hætti. Samkvæmt úttekt Vísis hafa þeir Sigurður og Helgi oft nýtt sér þjónustu „útfararstjóra“.

Ég fullyrði auðvitað ekkert um hvers vegna sérstaklega er fjallað um þá í þætti um kennitöluflakk en sé litið á viðskiptaferil þeirra virðast þeir ekki gæddir sérstaklega miklu viðskiptaviti – að minnsta kosti ekki í hefðbundnum skilningi þess orðs. Þeir hafa stofnað og rekið fjölmörg félög og fyrirtæki gegnum árin, en meðal þeirra (flest með aðkomu Sigurðar) eru G.Hilmars hf., Frjálst útvarp hf. og Ferðaþjónustan hf. sem urðu öll gjaldþrota árið 1990, Nonni hf,fyrr veitingahús og Skipholt hf. sem urðu gjaldþrota 1993, Veitingahúsið Austurstr 20 ehf., Fjartak hf. og Hagrannsóknir hf. sem urðu gjaldþrota árið 1994, Hagflötur-Vesturvangur ehf. sem varð gjaldþrota árið 1997, Eignarhaldsfélagið Háaleiti ehf. sem varð gjaldþrota árið 2003, TLC ehf. og Goða-torg ehf. sem urðu gjaldþrota árið 2008, Gagn 61 ehf. sem varð gjaldþrota árið 2012), V eignarhaldsfélag ehf. sem varð gjaldþrota árið 2013, Hagaland ehf. sem varð gjaldþrota árið 2014 og A.S.Gunnarsson ehf. sem varð gjaldþrota árið 2015.

​Ég er ansi hræddur um að með svona viðskiptaferil framkvæmdaaðilanna sitji íbúar Reykjanesbæjar á endanum uppi með lítið annað en hálfkláraðan og ónothæfan minnisvarða um það þegar djöfulsins snillingar fóru um Reykjanesbæ enn eina ferðina.