Eitt af vinsælustu forritum síðasta árs var forritið Prisma sem gerir notendum kleift að breyta hversdagslegum ljósmyndum í stórkostleg meistaraverk. …Eða því sem næst.

Þegar ég hlóð forritinu niður á síðasta ári renndi ég yfir notkunarskilmálana – jú, þannig fólk er til – og steytti á hlutanum þar sem þeir tala um vörslu gagna.
Prisma er nefninlega ekki eins og flest myndvinnsluforrit sem renna myndunum þínum í gegnum síur sem eru þegar til staðar innan forritsins. Prisma notar gervigreind og þrælflókna algóriþma til að breyta myndunum og sú vinnsla fer fram á gagnaþjónum fyrirtækisins. Þegar þú opnar mynd í forritinu og smellir á einhverja af síunum er myndin send til fyrirtækisins og svo aftur til baka. Í.hvert.einasta.skipti.

Skilmálar Prisma eru merkilegir aflestrar eins og reyndar skilmálar flestra samfélagsmiðla. Þegar þú notar forritið og samþykkir með því skilmálana ertu að fallast á að taka aldrei þátt í hópmálsókn vegna nokkurs skaða sem fyrirtækið getur valdið þér. Auk þess samþykkir þú að sækja aldrei rétt þinn gagnvart þeim nema með mjög þröngt skilgreindum leiðum og takist þér að krækja í einhvern snefil af réttlæti samþykkir þú jafnframt að bæturnar megi aldrei fara yfir fimmtán þúsund krónur.
En það merkilegasta er að Prisma segist geyma allar myndir sem sendar eru í gegnum forritið auk persónuupplýsinga. Þetta stóð í skilmálunum áður en þeir settu upp sitt eigið deiliviðmót og þá var bara hægt að vista myndirnar í símann. Því sendi ég þeim tölvupóst og spurði hvort það væri virkilega raunin að þau geymdu hverja einustu mynd sem maður rennir gegnum forritið, þó það sé bara til að skoða. Ég fékk ekki svar við þeim pósti og heldur ekki þegar ég ítrekaði.

Þetta er talsvert grófari myndasöfnun en hjá öðrum samfélagsmiðlum sem hamstra að minnsta kosti bara þær myndir sem þú sendir í gegnum forritið. Það er því vert að hafa það í huga næst þegar þú ákveður að nota forritið til að föndra með myndir sem þú myndir aldrei vilja að aðrir sjái. Þær fara nefninlega beint í sarpinn og bíða þar eftir næsta gagnaleka.