Þegar ég flutti til Svíþjóðar skráði ég mig í atvinnuleit á netinu. Setti upp voða fína ferilskrá, fallega mynd og innblásin orð um sjálfan mig. Ég spáði ekkert í því að taka skráninguna út þegar ég byrjaði að vinna aftur og loks gerðist það – í fyrsta skipti – að mér voru send skilaboð að fyrra bragði.
​Þau voru frá stjórnanda einkarekins leikskóla sem sagðist hafa séð ferilskrána mína og litist vel á. Þau hefðu starf í boði og ef ég hefði áhuga skyldum við funda gegnum Skype og svo fengi ég túr um skólann í kjölfarið.

​Þó ég sé nú í starfi sem ég er sáttur með var forvitni mín vakin. Hér í Svíþjóð fá kennarar ekki greiddan lágmarkstaxta skv. töflu eins og á Íslandi heldur semur hver um sín laun. Því fannst mér þetta upplagt tækifæri til að þreifa fyrir mér og kynnast launaumhverfinu í einkareknum skólum í leiðinni.
Semsagt… ​Ég sendi þeim póst og sagðist hafa áhuga. Ég væri laus við fyrsta tækifæri.

Svarið barst um hæl:

Frábært, sendu mér ferilskrána þína og mynd af þér og við bókum viðtal. Mér þykir það leitt en það eru margir að sækja um starfið svo þú skalt senda mér upplýsingarnar og ég hef samband.

Ah… Ég fékk semsagt einn af hundrað útsendum póstum og hún hafði ekki einu sinni fyrir því að lesa ferilskrána mína sem lá galopin á vefnum. Ég sendi svar:

Gott og vel. En þetta starf er nokkurn veg frá heimili mínu svo ég vil spyrja um launin áður en við höldum áfram. Bara gróft mat svo ég viti við hverju ég á að búast.

Hún svaraði:

Ertu ekki í Lundi? Það er 10 mínútur í burtu með lest og skólinn okkar er í 5 mínútna gönguferð frá stöðinni.
​Ég get ekki gefið þér neinar upplýsingar um laun án viðtals. Í starfinu felast mörg tækifæri til að vaxa og það fylgja einhver fríðindi, en fyrir rétta manneskju. Sú manneskja verður að deila sýn okkar og geta gripið tækifæri til að láta fyrirtækið vaxa og skína. Við erum með frábæran rekstur og margar nýjar hugmyndir og leitum bara eftir þessari einu manneskju sem fullkomnar liðið mitt.

Þarna sá ég að þetta var ekki yfirmaður sem ég kærði mig um að vinna með. Ég var þegar orðinn pínu pirraður yfir tvíverknaðinum í að láta mig senda ferilskrá og mynd sem liggja frammi á síðunni sem hún hafði samband við mig í gegnum. Það vekur ekki væntingar um skilvirka stjórnunarhætti.
​Ég varð svo enn pirraðri yfir þessu “hvaeridda, mar?”-svari. Annað hvort hefur hún aldrei notað almenningssamgöngur eða var bara með stæla. Til að komast þangað þyrfti ég að ganga, taka strætó, taka lest, ganga, taka strætó og ganga meira.

​Ég nennti ekki meiru og svaraði:

Jú, ég er í Lundi. Lestin er vissulega 10 mínútur á leiðinni en það er aðeins milli lestarstöðva. Á fæti, með strætó, rútum og lest tekur ferðalagið í heild sinni 70 mínútur. Þakka þér fyrir að hafa samband við mig en mig grunar að við eigum ekki samleið.

Þá kom þetta svar:

Engar áhyggjur. Starfinu fylgir fyrirtækisbíll og allskonar meira sem var ekki auglýst en ef þú hefur ekki áhuga er óþarfi að við séum að sóa tíma. Ég er upptekin manneskja og ég er viss um að þú hefur nóg að gera. Gangi þér vel í leitinni en mundu að peningar eru aðeins efnisleg gæði sem geta kannski fært þér stöðu eða fullt af hlutum sem þig langar kannski í, en þú getur aldrei keypt sanna hamingju.

Að vera kennari er gjöf sem sáir litlum fræjum fyrir framtíð fyllta góðum tilfinningum. Haltu áfram að standa þig og farðu vel með þig.

Ég tók mér meðvitaða tveggja daga pásu áður en ég svaraði henni.

Sæl,
mér finnst ég verða að stinga inn nokkrum orðum áður en við kveðjumst endanlega.
​Það er svo merkilegt hvernig tal um að peningar séu ekki höfuðatriði kemur oft upp í tengslum við starf kennara. Líka hvað það sé mikil gjöf. Misskildu mig ekki… ég er fullmeðvitaður um mikilvægi starfs míns og ég hlakka til hvers dags að fá tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á líf barna og taka þannig þátt í að móta betri morgundag. En það er þegar þessir hlutir koma upp í tengslum við laun kennara sem ég á það til að tjá mig.
​Sjáðu til, Svíþjóð er að kljást við kennaraskort. 40 þúsund kennarar hafa þegar valið annan starfsvettvang og sú tala fer hækkandi, því það útskrifast ekki nógu margir kennarar samhliða því að kennarar yfirgefa starfsgreinina. Það er ekki vegna þess að þeir kunni ekki að meta þá gjöf sem það er að vera kennari. Það er vegna lélegra launa í bland við síaukið starfsálag.
​Það er líka alveg rétt hjá þér að peningar kaupa ekki hamingjuna. En með þeim greiðir maður fyrir matvæli, föt og húsnæði, og alveg merkilega mikið af hversdagslegum hlutum sem sumir færa manni jafnvel svolitla hamingju.

​Þegar þú ræður kennara ertu ekki​ að útdeila ölmusu. Þú ert að borga fagmanneskju fyrir að vinna eitt mikilvægasta starf á þessari plánetu. Þú – og skólastjórnendur yfir höfuð – þarft að breyta um sýn. Í stað þess að velta fyrir þér hvers vegna þú ættir að ráða kennara ættirðu að velta fyrir þér hvers vegna kennarinn ætti að vilja vinna fyrir þig.
​Persónulega vil ég það ekki en ég vona að þú finnir einhvern sem vill það.

Styrmir B.