Ég hef verið að lesa fréttir frá Ólympíuleikunum í Ríó undanfarið og hef, eins og líklega flestir, algjöran viðbjóð á því hvers konar aðstæðum keppnin er haldin í. Fyrir utan glæpina, mannréttindabrotin og subbulega aðstöðuna er það þannig að sjórinn við Ríó er svo kyrfilega mengaður af sorpi og mannasaur að það er beinlínis hættulegt að synda í honum. Af öllum þeim saurlaugum sem hægt er að synda í er það skaðlegast að synda í vatni sem mengað er af manns eigin tegund, því þannig geta sjúkdómar borist milli einstaklinga. Magn saurgerla í vatni er ekki endilega ávísun á sýkingu en er til vísbendingar um möguleikana á að skaðlegir vírusar geta leynst í vatninu. En burtséð frá sýkingarhættunni er það auðvitað lítt geðslegt að svamla um í annarra manna saur.

Leitar þá hugurinn á heimaslóðir. Eins og bæjarbúar muna eflaust sóttist Reykjanesbær eftir því að gera smábátahöfnina í Gróf að Bláfánahöfn sökum hreinleika hennar. Þegar ég benti Bláfánasamtökunum á að steinsnar frá höfninni væri óhreinsuðu skólpi bæjarbúa dælt í hafið var afhendingunni frestað þar sem Bláfánasamtökunum var ekki sagt frá því og fyrri bæjarstjórnarmeirihluti brjálaðist svo að hafnarstjóra var sigað á mig í bæjarblaðinu þar sem hann lét eins og ég hefði hringt inn flotkúk í höfninni til þess eins að skemma fyrir aumingjans honum. Í greininni laug hafnarstjóri ennfremur blákalt að bæjarbúum og sagði vatnið í höfninni hreint og tært, þvert á birtar mælingar Heilbrigðiseftirlitsins sem sýna að vatnið í höfninni fellur jafnan í flokkinn „mikil saurmengun“. Greinin var honum og svipuherrum hans auðvitað til skammar og sýndu hversu lágt þetta fólk var tilbúið að leggjast til þess að fá sínu framgengt og rægja opinberlega þá sem dirfðust að biðja um betri vinnubrögð. Fúskið varð ofaná og fánanum var flaggað.

En eins ömurleg og viðbrögð bæjarins voru, þá eru öllu verri viðbrögð heilbrigðisyfirvalda – eða öllu heldur skortur þar á. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja mælir reglulega vatnið við bæinn og niðurstöðurnar er hægt að nálgast á vefsíðu þeirra. Eða… niðurstöður fram til maí 2015, en síðan þá hefur skráningin ekki verið uppfærð. En tölurnar eru háar – ógeðslega háar. Sem dæmi má nefna að um það leyti sem hafnarstjórinn sturlaðist mældust 24.000 saurkóligerlar í hverjum 100 ml vatns við gömlu bryggjuna við Duus. Þessi tala segir manni náttúrlega ekkert nema maður skoði Reglugerð um varnir gegn mengun vatns þar sem fleiri en 1.000 saurkólígerlar í hverjum 100 ml vatns gefa til kynna „ófullnægjandi ástand“. Þarna er semsagt 24-falt ófullnægjandi ástand. Og í ágúst þar á eftir mældust 400.000 saurkólígerlar í 100 ml. Fjögurhundruðfalt!

Þetta ætti auðvitað ekki að koma á óvart þar sem engin skolphreinsunarstöð er Keflavíkurmegin, en það sem kemur á óvart er að heilbrigðisyfirvöld láta eins og þetta sé ekki svona. Í umræðunni um Ríó var vitnað í umhverfisfræðing frá Kaliforníu sem sagði að ástandið í Ríó væri óásættanlegt, og nefndi sem dæmi að ef það færi yfir 400 saugerla í 100ml við strendur Kaliforníu yrðu sett upp skilti sem vöruðu fólk við því að fara í vatnið. Veturinn áður en ég flutti frá bænum ók ég heimleiðis í hávaðaroki og sá mann standa við gömlu bryggjuna við Duus (þar sem þann mánuðinn mældust 13.000 saurgerlar í 100 ml) og njóta þess að láta brimið berja sig hugsaði ég með mér að hann hefði líklega hugsað sig um tvisvar ef þarna væri skilti.

Hann hefði í það minnsta passað að hafa munninn lokaðan.

Og ef heilbrigðisyfirvöld sinntu skyldum sínum við bæjarbúa hefðu þau jafnvel gert athugasemd þegar sunddeild ÍRB var með áheitasund hér um árið og ungmennin þræddu saurmengaðan sjóinn meðfram bænum. Og þá væri kannski skilti við saurmengaða smábátahöfnina í Gróf sem varaði öll þau ungmenni við sem kasta sér þar í sjóinn á hverju einasta sumri.