Atli Már Gylfason skrifaði um daginn grein sem lýsti mörgu því sem ergir íbúa Reykjanesbæjar, enda hafa þeir verið duglegir að dreifa henni á samfélagsmiðlum undanfarið. Í greininni, sem ég hvet ykkur til að lesa, fer hann meðal annars yfir það fádæma klúður sem stóriðjuverkefnin í Helguvík hafa verið. Íbúar Reykjanesbæjar voru enn eina ferðina blekktir með fagurgala Sjálfstæðismanna og þeir sem sáu í gegnum ruglið stóðu með ekkert í höndunum þrátt fyrir nýja stjórn sem lapti upp sama rugl og allir hinir.
Hinn nýi meirihluti lýsti því yfir í fjölmiðlum að ekki stæði til að fara eftir niðurstöðu íbúakosningar um málið því þeir væru hvort sem er búnir að ákveða sig. Það var slæm byrjun hjá meirihlutasamstarfi sem meðal annars lofaði aukinni þátttöku íbúa í stjórnsýslunni, auknu gagnsæi, og því að styðja við minni atvinnustarfsemi frekar en að einblína bara á stóriðju.

Það átti að vanda sig betur við uppbygginguna í Helguvík en þegar fólk kallaði eftir því var því borið við að fyrir lægju samningar sem bærinn væri bundinn af. Stjórnsýslan er ekki opnari en svo að þegar íbúar sendu bænum beiðni um að sjá þá þennan samning var því hafnað á grundvelli viðskiptahagsmuna hlutaðeigandi fyrirtækja. Þrátt fyrir að í upplýsingalögum sé kveðið á um að í slíkum tilfellum eigi að afmá þá hluta sem um ræðir og afhenda gögnin samt sem áður var því ekki að heilsa. Þannig starfar meirihlutinn sem lofaði íbúum greiðari aðgangi að upplýsingum.

Í kosningum mærðu stjórnarflokkarnir litlu fyrirtækin í bænum en flytja svo verkefni frá þeim, eins og sást þegar vefsíðuhönnun fyrir bæinn var færð út fyrir bæjarmörkin. Það er ekki sjálfgefið að taka öllum verkefnum athugasemdalaust, en þegar fyrirtæki á staðnum er nærri lægsta boði í óformlegri tilboðsleit ætti bærinn að taka með í reikninginn ávinning af þeim sköttum sem skila sér til baka og þeim störfum sem skapast. Ég hef heimildir fyrir því að fyrirtæki í bænum hafi verið mjög nærri lægsta tilboði svo ég óskaði eftir að sjá tilboðin sem bárust en bærinn neitaði. Þrátt fyrir að fyrir liggi margir úrskurðir Úrskurðarnefndar um upplýsingamál þar sem bæjarfélögum er gert að afhenda slík gögn heldur bæjarstjórnin spilunum þétt að sér og við hin megum ekkert sjá. Þetta athæfi Reykjanesbæjar hefur verið kært til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þannig fór um gagnsæið sem íbúum var lofað.

Annar angi af samskiptaleysi bæjarfulltrúanna að tveir stjórnmálaflokkanna, sem stofnaðir voru utan um oddvitana, virðast hafa dagað uppi. Vefsíður flokkanna hafa ekki verið uppfærðar svo mánuðum skiptir og lítið bendir til þess að fólkið sem kaus flokkana geti haft áhrif á hvernig þeir starfa. Á meðan Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn halda reglulega fundi til að hlusta á raddir bæjarbúa virðast hinir flokkarnir, a.m.k. á yfirborðinu, litlu skeyta um það. Ef flokkarnir halda einhverja fundi fyrir kjósendur sína og meðlimi fara þau fundaboð ekki hátt.

Það er styttra en margur heldur í næstu kosningar og kosningavél Sjálfstæðismanna malar á fullu þó fólk átti sig kannski ekki á því. Ef fram heldur líkt og nú verða stjórnarflokkarnir búnir að glutra niður þeirri von sem fólk batt við þá og þurfa þá að stíga til hliðar fyrir áframhaldandi óráðsíu Sjálfstæðismanna.