Stundum gengur um Facebook saga af manneskju í matvörubúð sem var atyrt fyrir að nota ekki pappírspoka og upphóf þá reiðilestur yfir því hvernig yngri kynslóðin er miklu verri en sú eldri í umhverfismálum. Þið vitið… svona týpískt heimsósómaraus.
Enda birtist þetta yfirleitt hjá feisbúkkurum yfir ákveðnum aldri og þá með skilaboðum um að þetta verði allir yfir 50 (stundum 45 eða 35) að lesa.Þetta er nokkurnveginn svona:

Nýlega var ég að greiða fyrir vörurnar í matvöruversluninni og unga kassadaman lagði til að ég ætti að vera með eigin margnota vörupoka, þar sem plastpokar eru ekki umhverfisvænir.
Ég baðst afsökunar og útskýrði að mín kynslóð hefði ekki hugsað svo mikið um náttúruvernd. Kassadaman svaraði að það væri einmitt vandamálið. „Þín kynslóð hugsaði ekki nægilega um að varðveita náttúruna fyrir komandi kynslóðir.“
Hún hafði reyndar rétt fyrir sér að einu leyti – mín kynslóð hugsaði ekki mikið um náttúruvernd á þeim tíma.
En hvað höfðum við á þeim tíma? Eftir að hafa hugsað um þetta vel og lengi grafið djúpt í sálu minni komst ég að því hvað það var sem við höfðum.
Þá höfðum við mjólkurflöskur sem við skiluðum aftur, sumir marngota mjólkurbrúsa, og gosflöskur sem við seldum aftur. Verslunin sendi flöskurnar svo til framleiðandans, sem þvoði þær og notaði aftur. Þannig voru þær raunverulega notaðar margsinnis.
En við hugsuðum ekki um náttúruvernd.
Við gengum upp og niður tröppurnar þar sem lyftur og rúllustigar voru ekki í öllum verslunum, skólum og fyrirtækjum. Við gengum í búðina til að versla og við forum ekki á bílnum í hvert sinn sem við þurftum að fara nokkur hundruð metra.
En kassadaman hafði rétt fyrir sér – við hugsuðum ekki um náttúruvernd.
Þá þvoðum við bleyjurnar þar sem einnota bleyjur voru ekki til. Við þurrkuðum þvottinn okkar á þvottasnúrunni en ekki í orkufrekum skrímslum. Sól og vindur þurrkaði fötin okkar í þá daga.
Börnin erfðu fötin af systkinum sínum, ekki alltaf nýjustu tískuna.
En kassadaman hafði rétt fyrir sér – við hugsuðum ekki um náttúruvernd.
Á þeim tíma var aðeins til eitt sjónvarp á heimili ef það var yfir höfuð til á heimilinu, ekki eitt í hverju herbergi heimilisins. Sjónvarpið var einnig á stærð við vasaklút – ekki eins og Heimaey.
Í eldhúsinu blönduðum við öllu saman með handaflinu, þeyttum með handpískara. Við áttum ekki til vélar sem gerðu allt fyrir okkur. Þegar við pökkuðum viðkvæmum hlutum notuðum við gömul dagblöð til að vernda þá, við áttum ekki kúluplast eða plastfyllingarefni.
Á þeim tíma settum við ekki í gang bensíngráðuga mótora til að slá grasið, við notuðumst við handsláttuvélar sem við ýttum á undan okkur með eigin orku.
Líkamsrækt okkar var þessi daglega vinna okkar þannig að við þurftum ekki að fara í líkamsræktarstöðvar sem nota rafmagnstæki svo sem hlaupabretti, tröppuvélar og fleira.
En kassadaman hafði rétt fyrir sér – við hugsuðum ekki um náttúruvernd.
Við drukkum vatnið úr krananum í stað þess að nota plastglas eða flösku í hvert sinn. Við fylltum blekpennann aftur þegar blekið kláraðist í stað þess að kaupa nýjan penna. Við skiptum um rakvélarblað í rakvélinni, í stað þess að henda helmingi raksköfunnar, þegar blaðið hætti að bíta.
En kassadaman hafði rétt fyrir sér – við hugsuðum ekki um náttúruvernd.
Á þeim tíma fórum við á milli staða með strætó, börnin hjóluðu eða gengu í skólann í stað þess gera foreldrana að leigubílastöð (opinni 24 tíma á sólahring). Við höfðum eina innstungu í hverju herbergi (í besta falli) í stað þess að hafa margar innstungur á hverjum stað og á nokkrum stöðum í hverju herbergi.
Við þurftum ekki að hafa tölvuapparöt sem senda tölvufyrirspurn 20.000 km út í heiminn til þess að finna nálægan pizzastað.
Er ekki sorglegt hve kynslóð dagsins í dag kvartar yfir hve eldri kynslóðir gengu á auðlindir náttúrunnar – bara vegna þess að við vorum ekki „umhverfissinnuð“?

Svo lýkur þessu yfirleitt með hvatningu um að deila þessu sem víðast svo eigingjörnu yngri kynslóðirnar taki sönsum.

Þessi flökkusaga hefur verið í umferð á netinu í meira en áratug og fyrir tíma Facebook var henni deilt með tölvupósti. Hún hefur allavega verið nógu lengi í umferð til að einhver snillingurinn skrifaði niðurlag hennar, sem mér finnst að ætti að vera sjálfsagður seinni hluti sögunnar:

​​„Þegar við höfðum lokið okkur af við að klappa sjálfum okkur á bakið fyrir að spara bleyjur og rakvélablöð dældum við kolareyk út í loftið frá heimilum og verksmiðjum. Við settum fosfór í sápur og blý í málningu til að hlutirnir okkar glönsuðu betur og spreyjuðum DDT á akrana og garðana til að losa okkur við pöddur og fugla. Verksmiðju- og framleiðsluúrganginum dældum við svo í árnar og létum náttúruna skola því burt.
Við hentum ruslinu okkar í hauga og landfyllingar og þegar það varð of stórt og eitrað hentum við ruslinu á pramma og losuðum það í hafið. Ef maður sér það ekki þá er það ekki vandamál, ekki satt?
Við fundum upp eitruð plastefni og gerviefni því við vorum að verða uppiskroppa með dýr til að drepa svo við gætum breytt beinum þeirra og hornum í billjardkúlur og hárbursta.
Það var meira að segja mín kynslóð sem fann upp þennan einnota þægindakúltúr sem ég var að kvarta yfir rétt í þessu. Við fögnuðum frosnum matvörum, rotvarnarefnum og spreybrúsum sem skilja eftir sig heimsálfustór göt á ósónlaginu og glöddumst yfir öllu „nýju og endurbættu“ sem hlífði okkur við að elda, þrífa, versla inn daglega eða að láta gera við útjaskaða hluti.
Við breyttum gresjum í malbik, fjöllum í námur og skógum í verksmiðjur og myllur. Svo fórum við til útlanda og tættum í okkur regnskógana svo við gætum búið til gúmmídekk og viftureimar til að halda tækjunum okkar gangandi. Þegar hugsuðir okkar tíma sögðu okkur að varðveita náttúruna fyrir komandi kynslóðir hlógum við bara og sögðum að þau gætu bjargað sér sjálf. Við þyrftum að byggja járnbrautir og hraðbrautir, bora fyrir olíu og losa okkur við eiturefnaúrgang. Í okkar huga var sá sem hafði áhyggjur af því hvernig við vorum að menga bæði jörð, himinn og vatn bara einhver helvítis hippi.
Það sem ég er að reyna að segja er að allar kynslóðir hefðu getað gert – og geta enn gert – miklu betur þegar kemur að því að varðveita umhverfið okkar og að engin kynslóð ætti að reyna að eigna sér dyggð í þeim efnum.“„Rétt er það,“ sagði kassadaman. „Eigðu góðan dag.“