Meðan ég bíð eftir því að Reykjanesbær svari erindi mínu varðandi tilboðsumleitanir þeirra vegna vefsíðumála ætla ég að deila með ykkur fróðleiksmola varðandi upplýsingar frá sveitarfélögum.

Sveitarfélög, líkt og allir opinberir aðilar, starfa eftir ýmsum lögum og meðal þeirra eru lög nr. 140 frá árinu 2012, betur þekkt sem Upplýsingalög. Þessi lög setja opinberum aðilum ríkar skyldur varðandi veitingu upplýsinga, og í 5. grein þeirra stendur:

Sé þess óskað er skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Ekki er þó skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr.

Réttur til aðgangs að gögnum nær til:

  1. allra gagna sem mál varða, þ.m.t. endurrita af bréfum sem stjórnvald eða annar aðili skv. I. kafla hefur sent, enda megi ætla að þau hafi borist viðtakanda,
  2. dagbókarfærslna sem lúta að gögnum máls og lista yfir málsgögn.

Ef ákvæði 6.–10. gr. um takmarkanir á upplýsingarétti eiga aðeins við um hluta gagns skal veita aðgang að öðrum hlutum þess.

Í sem stystu máli þýðir þetta að opinberir aðilar verða að láta almenning fá aðgang að gögnum sem tengjast málum sem bærinn er að sýsla með. Þetta geta verið fundargerðir, afrit af bréfum, tilboð eða reikningar svo eitthvað sé nefnt.

Þannig gæti t.d. íbúi í Reykjanesbæ sem veltir fyrir sér hvað Reykjanesbær borgar Víkurfréttum mikið í augýsingar einfaldlega sent bænum beiðni um afrit af reikningum fyrir ákveðið tímabil og bænum er skylt að afhenda það. Ef íbúi í Garðabæ vill vita hvað starfsfólk bæjarskrifstofunnar er með í laun er hægt að senda beiðni um ráðningarsamningana og fá þá senda um hæl.

Þegar talað er um fyrirliggjandi gögn er átt við gögn sem þegar eru til. Þannig er hæpið að biðja um súlurit sem sýnir samanburð á útgjöldum sveitarfélags í auglýsingar árið fyrir og eftir kosningar, vegna þess að slíkt skjal er líklega ekki til og sveitarfélaginu er ekki skylt að búa það til. Hins vegar á sveitarfélagið að eiga afrit af reikningum fyrir tímabilið og er skylt að afhenda þá, og þegar maður hefur fengið þá afhenta er hægt að föndra í Excel upp á eigin spýtur.

Það er rétt að nefna að ákveðnar takmarkanir gilda um þær upplýsingar sem skylt er að veita. Þannig er t.d. ekki skylt að veita upplýsingar um mál sem varða þjóðaröryggi, viðskipti opinberra stofnana sem eru í samkeppnisrekstri, eða um persónleg málefni starfsfólks.

Þegar um er að ræða upplýsingar um það hvernig sveitarfélög ráðstafa opinberu fé bera þau því gjarnan við að þau þurfi ekki að afhenda gögnin á grundvelli 9. greinar Upplýsingalaga, en hún er svohljóðandi:

Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.​

Sveitarfélög hafa sum haldið því fram gegnum tíðina að þeim beri ekki að afhenda reikninga vegna þess að um sé að ræða fjárhags- eða viðskiptahagsmuni. Slík rök halda þó ekki vatni. Upplýsingar sem snerta raunverulega viðskiptahagsmuni fyrirtækja eru til dæmis varðandi kjör þeirra hjá birgjum, sambönd við önnur fyrirtæki, eða viðskiptaleyndarmál varðandi t.d. tæknilegar lausnir. Þetta á ekki við um hvaða verð birtast á reikningum þeirra til sveitarfélaga eða hvaða afslættir eru gefnir. Hægt er að finna marga úrskurði þar sem sveitarfélög hafa reynt að beita þessum rökum en verið gert að afhenda gögn engu að síður. Fyrirtæki sem versla við hið opinbera verða einfaldlega að vera meðvituð um upplýsingalöggjöfina auk þess sem þau ættu ekki að vera feimin við samkeppni.

Þegar upp kemur ágreiningur um hvort sveitarfélagi (eða opinberum aðilum yfirleitt) sé skylt að fara eftir Upplýsingalögum er hann leystur hjá Úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Það kostar ekkert að kæra mál til þeirra og það eina sem þarf að passa er að kæran berist innan 30 daga frá því að neitun barst og að öll gögn og rökstuðningur kærunnar fylgi. Ef sveitarfélagið hreinlega svarar ekki beiðninni er hægt að ítreka hana eftir 15 daga og þegar 60 dagar hafa liðið án svars er tilefni til að kæra.

Semsagt… Ef þig þyrstir í upplýsingar um hvað þitt sveitarfélag er að gera eða notar þína peninga í skaltu senda þeim bréf og óska eftir þeim gögnum sem þú vilt sjá. Sum sveitarfélög vilja fá beiðnirnar á sérstöku formi og hjá Reykjanesbæ þarf að biðja um gögnin gegnum mittreykjanes.is. Ekki er nauðsynlegt að vera íbúi sveitarfélagsins til að biðja um gögnin. Biddu um þau á rafrænu formi ef þau skyldu vera til þannig, því það er ástæðulaust að sóa trjám og tíma. Ef sveitarfélagið neitar sendirðu kæru og færð þá réttlátan úrskurð sem er hafinn yfir vafa.

Það er sjálfsagður réttur almennings að vita í hvað opinberu fé er varið svo þú skalt aldrei hika við að spyrja.

Þeir sem hafa spurningar um ferlið eða vilja fá aðstoð við það geta haft samband við mig hér á síðunni eða á Facebook.