Undanfarna daga hefur verið nokkur umræða um ákvörðun Reykjanesbæjar að færa viðskipti vegna vefsíðu bæjarins út fyrir bæinn, nánar tiltekið til fyrirtækisins Stefnu, sem hefur starfsemi á Akureyri og í Kópavogi. Guðmundur Bjarni Sigurðsson, eigandi vefhönnunarfyrirtækisins Kosmos & Kaos birti færslu á Facebook-síðu sinni og einnig í Víkurfréttum þar sem hann lýsir furðu sinni á þessu háttalagi Reykjanesbæjar, enda sé öflugur upplýsingatæknigeiri í Reykjanesbæ hjá fyrirtækjum sem bæði borga til samfélagsins og veita íbúum atvinnu.

Svanhildur Eiríksdóttir, verkefnastjóri upplýsinga- og tæknimála hjá Reykjanesbæ lagði orð í belg á umræðusvæði á Facebook þar sem hún sagði að ástæða þess að leitað hafi verið eftir tilboðum í nýjan vef hafi verið að núverandi vefur Reykjanesbæjar sé ekki skalanlegur.

Fyrir þá sem ekki vita er skalanlegur vefur sá sem breytir um form eftir því á hvaða stærð skjás hann er skoðaður. Þannig birtist vefurinn á einn hátt á tölvuskjá, en sé hann opnaður t.d. í snjallsíma raða hlutar vefsins sér öðruvísi þannig að auðveldara er að skoða hann. Þar sem vefsíður eru skoðaðar á snjalltækjum að miklu leyti er eðlilegt að nýir vefir séu hannaðir á þennan máta.

Svanhildur bætti svo um betur og birti grein á vefsíðu Reykjanesbæjar og í Víkurfréttum þar sem hún útlistar ástæður bæjarins. Hún nefnir að Stefna hafi verið með tilboð í samræmi við kostnaðaráætlun, en einnig fyrirtækið daCoda úr Reykjanesbæ. Stefna hafi verið sterkt (ekki sterkari, athugið það) á fleiri sviðum en verði og því hafi verið ákveðið að ganga til viðskipta við það fyrirtæki.

Þegar tvö fyrirtæki eru innan marka og annað þeirra er á svæðinu er eðlilegt að einhverjir furði sig á að ekki sé þá gengið til samninga við það fyrirtæki sem er á svæðinu. Það má færa rök fyrir því að sveitarfélag ætti að hlúa að þeim fyrirtækjum sem veita íbúum þess atvinnu og greiða því skatta. Sér í lagi ætti það að vera líklegri niðurstaða þegar fyrirtæki á svæðinu getur veitt þjónustu á því verðbili sem bærinn er tilbúinn að greiða. Þegar verslað er við fyrirtæki á svæðinu nýtur sveitarfélagið einnig mikils þjónstuauka sem hlýst af samfélagsábyrgð fyrirtækisins. Ég veit þess dæmi að vefhönnunarfyrirtæki á svæðinu, sem er í viðskiptum við bæinn, bauð ókeypis vinnu við verkefni sem var sprottið úr hugmyndavinnu þess fyrirtækis í viðleitni til að bæta heimabæinn. Að versla í heimabyggð getur nefnilega gefið svo miklu meira en bara það sem er í krónum talið.

Ég velti því fyrir mér að hvaða leyti Stefna væri sterkari en t.d. Dacoda, sem hefur starfað í bænum í 14 ár og þjónustað Reykjanesbæ um árabil, svo ég sendi Svanhildi bréf og bað hana að útlista fyrir mér í hverju þessi styrkur fælist. Hún vildi ekki svara því. 

Til að setja þetta mál í samhengi þarf að fara lengra aftur í tímann. Frá því á síðasta ári hefur Reykjanesbær verið að færa viðskipti sín til Stefnu og látið lítið fara fyrir því. Vefur safna Reykjanesbæjar var endurgerður, vefur Bókasafns Reykjanesbæjar og sömuleiðis vefur Duus-húsa.

Ég spurði Svanhildi hvort leitað hefði verið eftir tilboðum í þessa vefi og hún játti því. Þegar ég spurði hvar tilboða hefði verið leitað svaraði hún því ekki frekar. Því hafði ég samband við tvö stærstu vefhönnunarfyrirtækin í Reykjanesbæ, Dacoda og Kosmos & Kaos, og spurði hvort þeim hefði borist beiðni um tilboð. Svo var ekki. 

Hvers vegna er Reykjanesbær að færa viðskipti sín út fyrir bæinn án þess að leita tilboða hjá þeim sem þegar starfa hér?

Öllu stærri spurning þykir mér vera hvers vegna þau eru yfirleitt að endurnýja vefi á þessum tímapunkti, meðan fjárhagur bæjarins er í sögulega vondum málum. Það er vissulega sjónarmið að með góðum vefsíðum sé bærinn að auka þjónustu við íbúa og mögulega búa til hagræðingu í rekstri, en það er ekki alveg svo svart/hvítt.

Vefsíður eru misjafnar að gerð og kalla stundum á sérhæfðar lausnir sem eðlilegt er að greiða fagfóki fyrir að gera. Tökum vefsíðu Duus-húsa sem dæmi. Sú síða innheldur að mestu leyti staðlaðar upplýsingar um safnið fyrir utan þá hluta sem fjalla um yfirstandandi sýningar. Svoleiðis síðu er hægt að henda saman yfir nokkrum kaffibollum með aðgangi að t.d. Weebly og greiða svo 700 krónur á mánuði fyrir áskriftina. Ef ég væri að reka gjaldþrota bæjarfélag hefði ég fyrst skoðað þann möguleika áður en ég hefði opnað veskið fyrir vefhönnunarfyrirtæki, jafnvel þó það væri í heimabyggð.

Ég veit ekki hvað Reykjanesbær greiðir nú fyrir þessa vefsíðu, en ég veit að kostnaður við flóknari vefsíður, eins og t.d. aðalsíðu Reykjanesbæjar, hleypur á milljónum. Þegar um svo miklar fjárhæðir er að ræða þarf að vanda til verka og skoða frá fleiri sjónarmiðum en lægstu tölu tilboða og taka með í reikninginn hvað bærinn fær til baka í formi skatta og annars hagræðis.

Það er annað sem vert að halda til haga varðandi þetta mál. Undanfarin ár hafa þrjú stærstu vefhönnunar- og hýsingarfyrirtækin í Reykjanesbæ haft með sér samstarf um að þjónusta bæinn og gerðir hafa verið þjónustusamningar sem ná utan um flesta þá þjónustu. Nú segir Reykjanesbær væntanlega upp þjónustusamningum við þessi fyrirtæki þegar aðalsíða bæjarins er færð frá þeim og þá eru ansi margir hnútar óleystir. Bærinn þarf að semja upp á nýtt vegna ýmissa vefsíða, svo sem ljosanott.is, skessan.is og barnahatid.is. Þegar stærsti molinn er horfinn úr haugnum er hætt við að nýir samningar verði ekki svo hagstæðir, enda naut bærinn vafalaust samlegðaráhrifa af langstærstu síðunni.

Það kann að vera að verkefnisstjóri upplýsinga- og tæknimála hafi hugsað þetta mál til enda og reiknað út hvernig fjárhagsskuldbindingar koma út þegar litið er á heildarmyndina, en samskipti mín við bæinn hingað til hafa ekki orðið til þess að varpa ljósi á það.

Það er margt sem mig langar að vita um þetta mál og ég hef því sent Reykjanesbæ, á grundvelli Upplýsingalaga, formlega beiðni um gögn sem snerta það, t.d. hvað varðar þá fjármuni sem bærinn hefur hingað til varið í nýju vefsíðurnar og hvað stendur til að greiða fyrir þá nýjustu. Sveitarfélög hafa ríka upplýsingaskyldu og geta ekki skorast undan henni, jafnvel þó þeim eða viðskiptamönnum þeirra þyki það óþægilegt. Almenningur á rétt á að vita í hvað opinberu fé er varið.

Ég mun birta allar upplýsingar hér þegar þær berast.