Ég var að lesa greinina „Má bjóða þér eiturefni með jarðarberjabragði“ í dag og langaði af því tilefni að koma frá mér pælingum um greinina. Það er rétt að ég taki fram í upphafi að ég er ekki fylgjandi því að selja börnum vörur með nikótíni – enda er það ávanabindandi – og er hundrað prósent sammála því að þörf er á reglugerðum þar að lútandi.
Að því sögðu sný ég mér að framsetningu greinarinnar. Þrátt fyrir að Lára tæpi á því í formálanum að þetta snúist um að vernda börn, þá er meginhluti skrifa hennar til höfuðs rafrettum almennt. Hún tilgreinir sjö „varasamar fullyrðingar“ um rafrettur, sem virðast sumar eiga uppruna í hennar eigin höfði í þeim tilgangi að hafa eitthvað til að skrifa um, og gerir svo tilraunir til að hrekja þær. Ég ætla að fylgja formi hennar og útskýra hvar ég er ósammála framsetningunni. Tölurnar innan sviga eru úr upprunalegu greininni þar sem hún vísar í heimildir.
Picture

​„Rafrettur eru skaðlausar“ Enn er ekki hægt að fullyrða um skaðsemi rafretta því langtímaáhrif á heilsu eru ekki þekkt (3). Það mun taka áratugi til viðbótar þar til hægt verður að álykta afdráttarlaust um skaðsemi rafretta. Þó er það svo að flestir sérfræðingar eru sammála um að þær séu skaðminni en sígarettur.

Lára svarar þessari „varasömu fullyrðingu“ með því að ekki sé hægt að fullyrða um skaðsemi rafrettna, og svo notar hún afgang greinarinnar í að fullyrða um skaðsemi rafrettna.
Þó þessi „vafasama fullyrðing“ sé sett fram með þeim hætti að lesandinn eigi strax að hugsa að þær séu skaðlegar, þá kemur Lára að kjarna málsins í lok málsgreinarinnar:   Rafrettur valda minni skaða en sígarettur. Hugtakið skaðaminnkun er kannski ekki nægilega þekkt í umræðunni, en með því er átt við viðleitni til þess að minnka skaðleg áhrif löglegra og ólöglegra efna á heilsu, samfélag og efnahag án þess endilega að neyslu efna sé hætt.
Frekar en að mála skrattann á vegginn mætti Lára frekar taka skaðaminnkunaráhrifum rafretta fagnandi og halda því máli aðskildu frá þeirri afstöðu að slíkt ætti ekki að selja börnum.

​„Rafrettan mun leysa sígarettuna af hólmi“ Góðum árangri í tóbaksforvörnum var náð áður en farið var að selja rafrettur hérlendis. Auk þess hefur verið sýnt fram á að meira en 90% þeirra sem reyna að hætta sígarettureykingum með því að skipta yfir í rafrettur byrja aftur að reykja (4). Það er svipaður árangur og með nikótínplástrum.

Já, Lára. Það er svipaður árangur og með nikótínplástrum. Það er gott, er það ekki? Við hljótum að fagna því að í boði séu fleiri lausnir en nikótínplástrar fyrir þá sem vilja hætta að reykja. Sér í lagi ef við rýnum aðeins í greinina sem Lára nefnir máli sínu til stuðnings.
Þar kemur fram að eftir 6 mánuði voru 7,3 prósent þeirra sem notuðu rafsígarettur með nikótíni enn reyklaus meðan 5,8 prósent þeirra sem notuðu nikótínplástur voru reyklaus. Þetta eru of lágar tölur til að draga skýrar ályktanir, en gefa samt ekki ástæðu til að tala niður rafsígarettur.
Í sömu rannsókn, sem Lára vísar í, kemur fram að af þeim sem gáfust upp á reykleysinu gáfust þeir sem notuðu nikótínplástur upp helmingi fyrr en þeir sem notuðu rafsígarettur með nikótíni.
Í rannsókninni, sem er 3 ára gömul, tekur höfundur fram undir lokin að mögulega megi skýra slakan árangur rafrettnanna með því að þær skiluðu ekki auglýstu magni nikótíns, sem væri þekktur vandi fyrri kynslóða af rafrettum, og kallað er eftir frekari rannsóknum á nýrri kynslóðum.

​„Bragðefnin í rafrettum eru saklaus“ Rannsóknir sýna að rafrettuvökvi inniheldur í flestum tilfellum skaðleg efni og þar með talin krabbameinsvaldandi efni, sem geta valdið skemmdum á erfðaefni fruma (5,6,7,8).

Fyrsta heimild Láru er tveggja blaðsíðna fréttatylkinning frá FDA sem fjallar um að þau hafi áhyggjur af rafrettum því þær gætu mögulega innihaldið skaðleg efni. Þetta ætti ekki að vera fyrsti tengillinn á eftir setningu sem byrjar á orðunum: „Rannsóknir sýna…“
Ég gæti látið nægja varðandi heimild (6) að benda á að sú rannsókn bendir til þess að rafretturnar innihaldi 9-450 sinnum minni eiturefni en í sígarettum, og að þær að mörgu leyti séu til jafns við innöndunarhólkana frá Nicorette. Ég gæti líka bætt því við að þessi rannsókn er 3ja ára gömul og stendur þannig frammi fyrir sama vanda og sú sem áður var nefnd, því þar er notast við eldri og verri kynslóðir rafretta, eða nefnt að af þeim 11 rafrettuframleiðendum sem áttu rettur í rannsókninni þá er ekki einn einasti þeirra á meðal algengustu tegundanna í dag.
En þar sem ég er ekki að reyna að mæla rafrettum bót, heldur að róta eftir kjarna málsins, þá læt ég ekki ógert að rifja upp greinina sem Lára vísar í á eftir fyrstu staðhæfingunni og merkir með (3). Uppistaða þeirrar greinar er samanburður á fjölmörgum greinum með tilliti til rannsóknaraðferða, hagsmunaárekstra við rafrettuframleiðendur og hvort þær stangist á við aðrar rannsóknir. Heimild Láru númer (6) vísar í grein sem er einmitt þar að finna, vegna hagsmunaárekstra. Hver svo sem málstaðurinn er, þá hefði ég sleppt þessari vísun.

„Unglingar byrja ekki að nota rafrettur“ Tíðni rafrettureykinga hefur aukist meðal unglinga auk þess sem sýnt hefur verið fram á að þeir unglingar sem nota rafrettur eru líklegri til að leiðast út í sígarettureykingar (9,10,11,12). Tóbaksfyrirtækin eru nú að yfirtaka rafrettuiðnaðinn (13) og beina agni sínu að börnum og unglingum sem eru því miður oft auðveld bráð nikótínfíknar (14). Fjárhæðir sem settar eru í auglýsingar hafa hátt í tuttugufaldast á þremur árum (15) og tóbaksrisinn hefur hvorki gefið út yfirlýsingu um að markmiðið sé að útrýma tóbaksreykingum né nikótínfíkn (16).

Þarna er mesta áhyggjuefnið að mínu mati. Tóbaksfyrirtækin eru vissulega að færa sig inn á þennan markað og það ætti ekki að koma á óvart að þau hafi ekki þá yfirlýstu stefnu að útrýma tóbaksreykingum eða nikótínfíkn. Hver sá tóbaksframleiðandi sem gerði það væri snarlega útnefndur sá heimskasti í bransanum. Fíkn er hluti af viðskiptamódeli þeirra. Það er jafn rík ástæða fyrir því að halda rafrettum með nikótíni og alvöru rettum frá börnum, bæði vegna þess að þær eru ávanabindandi og vegna þess að rafrettur í höndum barna og unglinga normalísera reykingar.

„Rafrettuvökvinn er ekki slysagildra“ Ungum börnum stafar bráð hætta af nikótínvökvum sem gjarnan eru seldir í sælgætisbúningi. Eitrunarútköll af völdum nikótíns í rafrettuvökva fimmtíufölduðust í USA á fjórum árum (17). Lífshættulegum eitrunum meðal barna hefur verið lýst og tíu mánaða gamalt barn var hætt komið eftir að hafa drukkið nikótínvökva (18). Ef barn drekkur nikótínvökva getur það valdið öndunarstoppi og dauða.

Það er ekki að ástæðulausu að sumar greinanna sem Lára tengir við kalla eftir betri merkingum um að halda vökvanum fjarri börnum og betri öryggisstöðlum varðandi rafrettur.
Varðandi heimildir Láru, þá er rétt að benda henni á að Bandaríkin eru meira en bara Texas, en um það fjallar fyrri heimildin. Ég er viss um að henni fannst líka “fimmtíufaldaðist” hljóma miklu betur en “fór frá 2 tilvikum í 106 í 25 milljón manna fylki”.
Ef maður skoðar alvöru tölur má sjá að tilvikin hafa vissulega aukist til muna upp í um 1200 tilvik á ári hvað snýr að ungum börnum.
Árlega innbyrða um 115 þúsund börn í Bandaríkjunum þvottaefni. Eðlileg viðbrögð eru að fræða foreldra um það hvernig maður á að geyma efnin. Ekki að nota tölurnar sem rök fyrir því að banna þau.

„Nikótín er saklaust“ Nikótín er sterkt ávanabindandi eiturefni og er flokkað sem slíkt hjá umhverfisstofnun (19). Góð samantekt um skaðsemi nikótíns er að finna í riti bandaríska landlæknisembættisins (20). Tökum dæmi: Ef móðir neytir nikótíns í einhverju formi á meðgöngu getur heili barnsins orðið fyrir varanlegri þroskaskerðingu ásamt því að nikótínið eykur líkur á fyrirburafæðingu og andvana fæðingum. Einnig eru vísbendingar um að unglingar sem neyta nikótíns geta orðið fyrir skaðlegum áhrifum á heila (21,22).

Sammála. Nikótín er skaðlegur óþverri. Þetta er ein meginástæða þess að mikilvægi þess að vernda börn og unglinga fyrir rafrettum. Það dregur þó ekki úr gildi rafretta sem skaðaminnkunartæki.

„Þeir sem anda að sér óbeinum rafrettureyk eru í engri hættu“ Skaðsemi óbeinna sígarettureykinga var staðfest mörgum áratugum eftir að vitað var um skaðsemi beinna reykinga. Rannsóknir sýna að skaðleg efni í rafrettureyk greinast í umhverfi þeirra sem reykja rafrettur (23,24). Fleiri rannsóknir eru nauðsynlegar áður en hægt verður að álykta um áhrif óbeinna rafrettureykinga.

Fyrri heimildin fjallar um gæði rafretta (einföldustu gerðar) og hvernig slök framleiðslugæði valda því að aukaefni úr búnaðinum sjálfum smitast í gufuna. Ef gæðaeftirlitið klikkar og búnaðurinn er drasl má búast við svona löguðu. Við hverju býst hún?
Seinni greinin fjallar svo reyndar um loftgæði en lýkur á þeim orðum að niðurstöðurnar sé erfitt að túlka og óvíst sé um áhrif á þá sem verða fyrir óbeinum rafrettureykingum.

Umræðan um rafrettur er ekki gallalaus. Eins og kemur fram í einni greininni sem Lára tengir í, þá eru margar rannsóknir ómarktækar vegna hagsmunaárekstra og ógagnsærra aðferða. Svo velur hver hópur sínar uppáhaldsgreinar með því að gúggla efnisorð og veifar framan í hinn hópinn.

Yfirvegunar er þörf í þessu þrasi. Rafrettur eru skaðaminnkandi valmöguleiki fyrir reykingafólk og lífsstílsval fyrir þá sem sjá sjarma í því að úr þeim standi reykjarstrókur.

En þó ekki sé nema fyrir það hve ávanabindandi nikótín er, þá þarf snarlega að setja reglur sem takmarka aðgengi barna að rafrettum, hvort sem þær eru merktar nikótínlausar eða ekki. Það er ekki bara vegna normalíseringarinnar, heldur líka vegna þess að í sumum þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið á rafrettum geta rannsakendur þess í aðferðafræðikaflanum að við mælingu á „nikótínlausum“ vökvum reynist þeir innihalda nikótín. Meðan regluverkið hvað snýr að rafrettum er ekki fullmótað er ekkert í hendi varðandi gæði vörunnar eða innihald.

Að halda rafrettum frá börnum er mikilvægt og við hljótum að geta sameinast um þá afstöðu og þrasað svo um hitt á öðrum vettvangi.