Rúv greindi frá því að fyrrverandi Sparisjóðsstjóri í Keflavík, Geirmundur Kristinsson, væri ásakaður um umboðssvik „með því að veita félaginu Duggum ehf. 100 milljóna króna yfirdráttarlán í júní 2008, án þess að afstaða lánanefndar sparisjóðsins lægi fyrir, án þess að áhættu- og greiðslumat færi fram og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti. Lánið var á endanum afskrifað í júlí 2015 vegna gjaldþrots Duggs [sic].“

Fréttinni fylgdu þó engar upplýsingar um hverjir áttu fyrirtækið svo ég fór að róta. Skv. fyrirtækjaskrá var Duggur ehf. skráð með lögheimili að Bragavöllum 8, en þar býr Sverrir Sverrisson, athafnamaður og bílaleigueigandi.

Téður Sverrir fór fyrir Fasteignafélagi Suðurnesja ásamt Steinþóri Jónssyni [1] [2], sem fékk afskrifaðar 246 milljónir í apríl árið 2012. Meðal þess sem félagið átti á sínum tíma var Brekkustígur 39, þar sem lögreglan og SS hlutir eru nú til húsa.

Þessi sami Sverrir skuldaði Sparisjóði Keflavíkur persónulega rúmar 148 milljónir króna í september 2008 skv. Fjármálaeftirlitinu með veði í stofnfjárbréfum í bankanum upp á 10 milljónir. [1]

Sverrir Sverrisson hf., í eigu Sverris, skuldaði Sparisjóðnum líka 111 milljónir króna án þess að nokkur veð væru þar að baki. [1]

Eignarhaldsfélagið Blikavöllur 3 fékk afskrifaðar 280 milljónir árið 2012, en það var í eigu Fasteignafélags Suðurnesja sem var svo aftur í eigu Sparisjóðabanka Íslands (40%), félagsins Heiðarbúar ehf. (40%) og Sparisjóðsins í Keflavík (20%). [1]

Viljið þið giska hver var á bak við Heiðarbúa ehf.? Jú, Sverrir Sverrisson.

Og það sem meira er, Heiðarbúar ehf. var úrskurðað gjaldþrota árið 2012 og þegar skiptum lauk í byrjun þessa árs hafði ekkert fengist upp í 2,2 milljarða króna kröfur. Tvöþúsundogtvöhundruð milljónir. [1]

Við getum þó öll fagnað því að Sverrir hefur komist klakklaust frá þessum hrakningum og rekur nú Fasteignafélagið Þórshamar. Gegnum það eða annað félag* hefur hann keypt húsnæði SSS á Ásbrú og reyndi að kaupa húsnæði Hæfingarstöðvarinnar en vék fyrir forkaupsrétti Reykjanesbæjar.

Viðbót 19. mars:
Sverrir Sverrisson átti til helminga með Elíasi Georgssyni fyrirtækið Miðland ehf. sem átti Nikkelsvæðið. Félaginu tókst á einu ári að safna 452 milljón króna skuld við Sparisjóðinn, sem keypti félagið af þeim félögum fyrir 867 milljónir króna. Það er nokkuð góður gróði fyrir vinina ef tekið er tillit þess að þeir greiddu líklega 230 milljónir fyrir félagið ári áður. Enn betur hljómar díllinn þegar litið er til þess að Miðland ehf. lánaði þeim á sínum tíma til að kaupa Miðland**, og sem hluta af kaupverðinu greiddi Sparisjóðurinn upp 268 skuld Sverris og Elíasar við Miðland og greiddi þeim svo hvorum um sig 300 milljónir í reiðufé.

*Tengiliður Sverris hafði samband við mig og sagði Þórshamar bara eiga eina fasteign en vildi ekkert segja um önnur félög eða fasteignir. Því gæti verið um annað félag að ræða. 
**Gjörningurinn af hálfu Elíasar er staðfestur í dómsorði, en sé litið til þess að þeir skulduðu félaginu saman um tvöfalda þá upphæð sem Elías fékk lánaða er líklegt að báðir hafi búið svona um hnútana.